2. apríl 2008

Fyrsti apríl!

Aprílgöbbin í ár voru álíka fyndin og dánarfregnirnar í Morgunblaðinu. Mbl.is kom að vísu með nokkuð sniðuga frétt um að hægt væri að horfa á nýjar bíómyndir á vef þeirra, ótrúlegt í alla staði en alveg pottþétt að einhverjir létu gabbast. Aðrir miðlar voru með nokkrar fréttir, hverja aðra lélegri og allt virtist þetta bera keim af fljótfærni og illa ígrunduðu gríni.

Það er óskrifuð regla að fyrsta aprílgabb hafi það að markmiði að láta einhvern hlaupa yfir þröskuld. Það kannast flestir við að hafa einhverntímann hlaupið “fyrsta apríl”. Aprílgöbb gærdagsins voru hinsvegar líkari því sem ég las einu sinni í teiknimyndasögubók um Viggó Viðutan. Þar fór snillingurinn Viggó hamförum á 1.apríl og hrekkti Val greyið á allan mögulegan máta. Mér er sérstaklega minnistætt þegar Valur opnaði hurðina á skrifstofunni sinni og framan í smettið á honum skall þessi rennblauti og illa lyktandi fiskur, sem var hátt í meter af lengd. Slíkt hefur ekkert með það að gera að hlaupa fyrsta apríl, en þetta þótti Viggó alveg einstaklega fyndið. Svipað og með vel flest aprílgöbb gærdagsins. Mörg voru þau einfaldlega fáránlega illa ígrunduð lygi og ekkert annað. Ekkert hlaup fólst í því og lítil skemmtun, önnur en að ljúga að fólki. – “Aron að taka við landsliðinu í handbolta...Björn Ingi að gerast ritstjóri..Kvikmyndagerðarmenn kæra heimasíðu”... – Þetta eru léleg dæmi um um aprílgöbb gærdagsins í íslenskum fjölmiðlum. Hvað er fyndið við þetta? Hvað er fyndið við það að ljúga að fólki að einhver kvikmyndagerðarmaður ætli sér að kæra einhverja aðstandendur heimasíðu? það gæti bara allt eins verið satt, og ekkert fyndið svona apríllygi.

En til þess að gera stutta sögu talsvert lengri, þá má ég til með að segja ykkur frá alveg hreint svakalega vel heppnuðu aprílgabbi þar sem fórnarlambið var marga daga að jafna sig og fórnarlambið var ... ég sjálfur!

Aldrei þessu vant þá komu bræður mínir hvergi nálægt því, en ég var þá staddur úti á landi, óharðnaður og feiminn. Ég hafði nýverið hafið störf í lítilli fiskvinnslu og var langyngstur á vinnustaðnum og bæði fámáll og hlédrægur. Einn daginn kemur verkstjórinn til mín, snemma að morgni og biður mig um að taka lyftarann og fara niður á höfn (í vigtarskúrinn) og sækja “innkomumiðana”. Hann sagði pabba sinn venjulega sjá um þessa hluti en þar sem hann væri veikur, þá yrði ég að skjótast frá. Ég vissi náttúrulega ekkert hvað maðurinn var að tala um, og varð þess vegna mjög feginn þegar hann útskýrði þetta fyrir mér í smáatriðum og ég komst að raun um að verkefnið var ekki mjög flókið. Ég tók sem sagt lyftarann, og átti að hafa með mér tómt bretti undir miðana. Það var greinilegt að hér var á ferðinni mikið magn. Svo hélt ég af stað og keyrði rafmagnslyftarann þessa 10 mínútna leið niður að vigtarskúr og kynnti mig þar fyrir manni, og sagði frá erindi mínu. Hann kannaðist að sjálfsögðu strax við erindið en sagðist því miður ekki vera búinn að sækja miðana, þær væru niðrí ísstöð ennþá, og ég yrði bara að skjótast eftir þeim. Það var nú lítið mál, enda ísstöðin ekki nema 5 mínútur frá. Ég skunda þangað hið snarasta, en verð að bíða í stutta stund eftir manninum sem þar var, því hann var að tala í símann. Eftir nokkrar mínútur kemur maðurinn til mín og réttir mér 3 límmiða rúllur í litlum plastpoka og segir gjörðu svo vel. “ Já þakka þér fyrir, segi ég.” En ég man það eins og það hafi gerst í gær hvað ég var undrandi á magninu! Ég var mættur í gúmmígalla, á lyftara, með heilt vörubretti, tilbúinn að taka við heilum rúmmetra af miðum, en fékk skitnar 3 rúllur í plastpoka. “Nú jæja” hugsa ég og sting miðunum í vasann og keyri til baka. Þegar ég kom til baka, og keyri inn í vinnslusalinn á fyrstihúsinu, þá liggur þar allt starfsfólkið, veltandi um af hlátri, með tárin í augunum. Ég greindi engin orðaskil, því fólkið gat ekkert talað fyrir hlátri. Ég man að það eina sem ég hugsaði, var hvað þetta væri nú djöfulli skrítið lið. Ég hafði ekki hugmynd um hvað var að liðinu. Ég vippa mér hróðugur upp að verkstjóranum, ánægður með að hafa lokið verkefninu sem mér var sett fyrir. Um leið og ég tek miðana úr vasanum og skelli þeim á borðið hjá honum segi ég hátt og snjallt “ég hefði átt að taka aðeins stærra vörubretti undir þetta”. Þarna hafði ég nú sagt sniðugan brandara og var býsna góður með mig bara. Afhverju fólkið hélt áfram að hlæja og hreinlega grenja af gleði, var mér hulin ráðgáta. “Hvað er eiginlega í gangi hérna?” spurði ég að lokum. Enginn gat talað, slíkur var hláturinn. Eftir að vinnslan hafði verið stopp í allavega 10 mínútur, gat einhver stamað út úr sér : “Veistu ekki hvaða dagur er” ? Nei, ég hafði ekki hugmynd um það ... fimmtudagur eða eitthvað, nú?

“Það er 1.aprííííííl” heyrði ég þá nokkra reyna að grenja upp úr sér !!!!!!

Hmm....það var um það bil á þessari stundu sem ég áttaði mig á því, að kanski væri ekki allt með felldu, og líklega væri fólk að hlægja að mér.

Eftir þetta man ég ekkert hvað gerðist. En eftir á, þá var þetta helvíti fyndið

3 ummæli:

Oskar Petur sagði...

Höh! Það tíðkaðist öll þau sumur sem ég vann í fiski að ljúga alla nýliða fulla og láta þá gera alveg ótrúlegustu hluti. Það hafði nákvæmlega ekkert með 1. apríl að gera.

Djöfull gott gabbið hjá Vantrú, mér finnst alveg jafn fyndið að plata fólk til að rífast í bloggkommentum eins og að plata það til að "hlaupa" eitthvert.

Nafnlaus sagði...

Þetta aprílgabb sem ég er að vitna í, hafði hinsvegar EKKERT með það að gera hvort ég væri nýliði í fiskiðnaði eða ekki! Heldur að það var 1.apríl. Þó ég hafi verið ungur og óharðnaður, þá var ég ekkert að stíga inní fiskvinnslu í fyrsta skiptið. Neibb...1.apríl varð það...

Bóla

Nafnlaus sagði...

Hæ frændi,
hmmm síðan hvenær hefur þú verið "bæði fámáll og hlédrægur"?
kær kv. systir Pála