Óttar M. Norfðfjörð skrifar grein sem heitir „Af kerfum“. Greinin er bæði illa stíluð og hugsuð. Hún grundvallast á dæmi – og dæmið er misheppnað.
Óttar segir að stundum lendi hann í því að vera úti á gangbraut þegar rauði kallinn kemur. Þá sé það réttur bílanna að aka áfram og yfir hann. En þrátt fyrir þennan rétt sé rangt að gera það.
Nú er það auðvitað svo að ekkert kerfi veitir ökumanni bíls rétt til að keyra á strandaglóp á gangbraut. Vegfarandinn á þar allan rétt. Liturinn á kallinum skiptir engu máli. Eigi gangandi vegfarandi að bera sjálfur skaðann af því að keyrt sé á hann þarf hann beinlínis að kasta sér fyrir bíl vitandi vits eða af fullkomnu ábyrgðarleysi. Og jafnvel þá þarf bílstjórinn að bera kostnaðinn af verulegu leyti. Grunnreglan er nefnilega sú að rétturinn er alltaf gangandi vegfarandans.
Þessi misskilningur Óttars skiptir þó engum sköpum. Hann er í raun aðeins til marks um fúsk. Fleira er til marks um fúsk í greininni. Skoðum þessar efnisgreinar:
[Kerfin] eru til einföldunar. Án þeirra væri lífið flóknara og erfiðara [...] Þótt kerfin séu hagnýt og einfaldi lífið þá geta þau gabbað okkur. Um leið og við trúum því að kerfin svari öllum spurningum erum við í vanda sett. Kerfin eiga við um einföldu hlið heimsins. Ef við styðjumst eingöngu við það [sic] gleymum við flóknu hliðinni; ósýnilegu hliðinni. Ef við styðjumst eingöngu við kerfið, þá reynum við að smætta allt undir það, jafnvel fyrirbæri sem liggja fyrir utan sjálft kerfið. Þannig felum við okkur á bak við kerfið. Það réttlætir breytni okkar. Það einfaldar og svarar ósvöruðum spurningum.
Kerfismenn hlífa sér á bak við kerfið eins og um skjöld væri að ræða. Innan tíðar telja þeir að allur heimurinn sé kominn undir kerfið. Þannig réttlæta þeir breytni sína, enda þótt sannleikurinn sé sá að einungis hluti heimsins falli undir kerfið. Hinn hluti heimsins verður ekki settur undir kerfi, því hann er ófanganlegur. Kerfismenn útiloka þennan hluta heimsins með vísan í kerfisheiminn sem réttlætir breytni þeirra.
Ritstjórar sem hleypa svona texta í bók ættu aldrei að koma nálægt ritstjórn. Þrátt fyrir óskaplegan vaðal og nær ekkert nema klifanir tekst Óttari samt ekki að miðla grunnhugmyndinni sem í efnisgreininunum fólst.
Það er plagsiður heimspekinga að setja á svið ómerkilegar leiksýningar með hugtökum. Hugtökunum er stillt upp með tilteknum hætti og svo hefst lítil styrjöld þar sem lúskrað er á nokkrum hugtökum með öðrum hugtökum. Vandinn er, að svona hugtakaleikur er yfirleitt í sáralitlum tengslum við raunveruleikann. Þrátt fyrir að Óttar gefi ítrekað í skyn að hann sé einmitt að sneiða hjá þessum ósið með því að vísa í eitthvað utan kerfa, þá er öll grein hans fyrirtaks ábendingarskilgreining fyrir nákvæmlega þetta.
Auðvitað má færa rök fyrir því að við búum við kerfi. Hinsvegar er ekki hægt að færa rök fyrir því að til sé eitthvað sem ekkert kerfi nær yfir. Af þeirri einföldu ástæðu að rök byggjast upp á kerfi og allur rökstuðningur þess að utankerfisveröld sé til verður til innan röklega kerfisins.
Slíkar pælingar skipta þó engu máli. Það sem skiptir máli er einfaldlega það hvort hugboð Óttars sé rétt, þ.e. að þótt hægt sé að vísa til þess sem réttar að birta myndir af Múhameð þá blikni sá réttur við hliðina á öðrum rétti (sem hann leyfir sér að kalla siðferðilegan), sem bannar birtingu myndanna.
Sú spurning, sem skiptir hér öllu máli, og Óttar forðast að taka föstum tökum, snýst um tvennt. Hún snýst um ásetning þeirra sem birtu myndirnar og áhrif þeirrar birtingar á aðra. Það er til marks um einkennilegan fjöltakt greinar Óttars að hann getur klifað endalaust á smáatriðum en þegar kemur að því sem skiptir máli, þá reimar hann á sig sjömílnaskó og er horfinn. Hann fullyrðir, án örðu rökstuðnings, að birting myndanna hafi móðgað múslima og niðurlægt islam og trúarbrögð almennt.
Hér notar hann gildishlaðin hugtök eins og móðgun og niðurlægingu án þess að gera nokkra grein fyrir því hvaða kerfi þau tilheyra. Þvert á móti reynir hann að sannfæra lesandan um að siðferðilegu hugtökin sem hann notar séu kerfislaus og hluti þeirra deilda heimsins sem er ósýnilegur og kerfi megna ekki að ná utan um.
Raunin er auðvitað sú að þegar Óttar hættir að fimbulfamba um tvíhyggju sína almennt og tekur upp konkret dæmi eins og að eitt sé móðgandi og annað niðurlægjandi, þá er hann að sjálfsögðu að vísa í eitthvað kerfi. Í allri múhameðsmyndadeilunni er ekkert kerfisbundnara en vanþóknun múslima.
Tilraun Óttars til að formæla birtingu múhameðsmyndanna með vísan til hins ósýnilega heims er ómerkileg tilraun til að rökstyðja mál sitt út frá himnakrók. Rökstuðningurinn hangir á þræði sem enginn sér fyrir endann á.
Öllum efnistökum Óttars má snúa við. Öllum vopnum sem hann notar má beina gegn honum sjálfum. Notum dæmið hans. Bílstjóri situr undir stýri á rauðu ljósi þegar hann sér Óttar koma gangandi út á götuna. Óttar er í þungum heimspekilegum þönkum og veitir því ekki athygli að það er kominn rauður kall. Bílstjórinn þenur vélina. Óttar lítur upp, sér rauða kallinn og stirðnar af hræðslu. Hann heldur að nú megi bílstjórinn keyra á sig. Sem bílstjórinn og gerir.
Bílstjórinn var einmitt ekki að fylgja reglum kerfisins. Hann er einmitt ekki í rétti. Hann gerir þetta samt. Fyrir því hefur hann sínar ástæður. Og þessar ástæður falla innan sviðs þess ósýnilega ekki síður en vorfiðringur í hjarta heimspoekingsins þegar hann sér ástfangið fólk leiðast í almenningsgarði.
Óttar reynir ekki einu sinni að takast á við raunverulegar ástæður þess að menn birtu myndir af Múhameð. Hann slæst aðeins við þá réttlætingu sem felst í því að segja að það sé hreinlega ekkert ólöglegt við það. Hann eyðir öllu sínu púðri í að reyna að sanna að þótt eitthvað megi, þá eigi ekki að gera það. Sem er líklega óþarfasta athugasemdin í öllu þessu langa og leiðinlega máli. Það birti enginn Múhameðsmynd bara af því að það má (það má líka birta uppskrift af rabbabaraköku eða grein um æxlun sólblóma). Rétturinn (sem Óttar er að berjast við) var nauðsynlegt skilyrði fyrir birtingunni en ekki nægjanlegt. Það er ekkert að marka umræðuna nema verið sé að fást við nægjanlegu skilyrðin.
3 ummæli:
>Og jafnvel þá þarf bílstjórinn að bera kostnaðinn af verulegu leyti.
Á þetta ekki að vera „að verulegu leyti“?
Vissulega. Svo vantar „n” á einum stað og „f” er ofaukið á öðrum.
Þessi gagnrýni á óljósleika þessa Óttars er jafn óljós og hans skrif.
Annars birtu menn Múhameðsmyndirnar sem ádeilu á hryðjuverkamenn.
Skrifa ummæli