29. febrúar 2008

Hátæknisjúkrahús

Hátæknisjúkrahús, já það verður aldeilis munur að fá nú loksins almennilegt sjúkrahús, splunkunýtt og auðvitað með öllum bestu og nýjustu tækjum, risastórt og allt til alls, þetta getur varla litið betur út fyrir okkur „sjúklingana“. Jú og svo er það á besta stað í bænum, eiginlega bara alveg í miðbænum, frábært, sem sagt.

Það er reyndar eitt sem ég velti fyrir mér í sambandi við þetta glæsi-sjúkrahús; hvar í fjandanum eigum við að finna fólk til að vinna þarna ? Nú erum við með sjúkrahús sem eru víst allt of lítil og ekki nærri nógu tæknileg, en allt meira og minna í tómu rugli, vegna þess að ekkert gengur að manna þau, læknar og hjúkrunarfólk hamast þarna allan sólarhringinn á aukavöktum og jafnvel auka-aukavöktum, en ekkert saxast á biðlistana og fólk sem þarf á bráðaþjónustu að halda, situr tímunum saman og bíður eftir að komast að.

Auðvitað verður eitthvað huggulegra að bíða í nýju húsi og sjálfsagt fer eitthvað betur um starfsfólkið á hátæknisjúkrahúsinu, eða kannski verður þetta bara svo tæknilegt að sjúklingarnir læknast við það eitt að koma á staðinn, hvað veit maður?

Nei, ég botna satt að segja ekkert í þessu helvítis rugli, með sömu rökum má segja að íslenska fótboltalandsliðið verði best í heimi ef við bara byggjum nýjan fótboltavöll, aðstaðan er sem sagt það sem þarf, mannskapurinn skiptir engu máli.

Ólafur Ragnar Hilmarsson 

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Menn hafa nú ekki getað drullast til að reka þetta forljóta sjúkrahús sem fyrir er, án þess að tapa milljörðum á hverju ári. Hvernig ætla menn svo að geta rekið þetta sjúkrahús ? Mér finnst lágmarks krafa að menn geti rekið "litla sjúkrahúsið" fyrst, áður en þeir taka til við að resa og reka ennþá stærra og flottara. Ekki þar fyrir, að það er auðvitað þörf á nýju sjúkrahúsi.

kv, Bóla