17. febrúar 2008

Handrukkarinn sem hvarf


Þeir eru ekki margir Annþórarnir á Íslandi og það mætti segja mér að þeim eigi ekki eftir að fjölga neitt tiltakanlega mikið á næstunni. Annþór nokkur hefur ítrekað komið í fréttum. Hann ku vera harðsvíraður handrukkari, þykir þesslegur að hafa hjálpað nafna mínum í kröggum að losna við rækilega tryggða eðalbíla – og nú síðast er hann grunaður um stórfelldan fíkniefnainnflutning.

Það virðast vera ósjálfráð viðbrögð margra að hæðast að öllu sem kemur á óvart eða er einkennilegt. Eftir að uppgötvaðist að Annþór gekk að mestu laus um efstu hæðir lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu og hafði þar aðgang að forláta kaðli sem hann gat notað til að strjúka úr varðhaldi, svona rétt til að skjótast heim og tékka á tölvupóstinum sínum og uppfæra MySpace (hvaða steinaldarmenn eru annars enn á MySpace? Veit hann ekki að Facebook er málið?) þá hafa margir gert óspart grín að löggunni.

Löggan fékk raunar nokkur stig til baka þegar þeir mættu óboðnir í afmælisveislu Annþórs sem haldin var í fataskáp í Mosó.

Ég held að rangt sé að hæðast að hlut svartstakkanna að þessu sinni. Ég held að Geir Jón hvítasunnulögga hafi einfaldlega minnugur Salómóns konungs hugsað út fyrir rammann.


Salómon þekkti leiðir til að fá þá seku til að koma upp um sig sem öðrum brast hugmyndaauðgi til að eygja. Hann bauðst til að skera umdeilda barnið í tvennt vitandi það að móðurástin myndi bæra á sér.

Það reynist lögreglunni oft erfitt að fá glæpamenn til að haga sér eins og glæpamenn. Forhertir kónar geta elt gamlar konur um alla Voga með blóðugar rafmagnsborvélar en um leið og þeir komast undir hendur lögreglunnar (að ekki sé talað um dómara) breytast þeir í heilaga fermingardrengi sem aldrei hafa svo mikið sem lastmælt eða fengið blautan draum.

Um leið og Annþór var settur inn fór af stað herferð á netinu við að útmála hann sem stakt gæðablóð, barna- og dýravin. Og hann virðist hafa verið hvers manns hugljúfi í grjótinu. Hann fékk að nota símann, sofa með kveikt ljós og opið fram á gang og þar fram eftir götunum. Ég hugsa að Geir Jón hafi verið farinn að örvænta um að þeim tækist nokkru sinni að fá manninn dæmdan. Og þar sem Geir Jón er Biblíufróður maður mundi hann eftir Salómóni.


Þetta held ég að hafi gerst: Þegar Geir Jón kom að breiða yfir Annþór nóttina örlagaríku held ég að hann hafi raulað afmælislagið svona rétt til að minna Annþór á að hann hafði misst af afmælinu sínu. Þar sem Geir Jón er mikill söngfugl er ekki ólíklegt að Annþór hafi fengið lagið á heilann. Síðan hefur Geir Jón kysst hann góða nótt og látið einhver orð falla um kaðaldrusluna sem væri læst inni í geymslu rétt hjá klefanum. Síðan hefur hann hjálpað Annþóri með Faðirvorið (hann hefur vafalaust gefið unga manninum Biblíu) og læðst svo fram á gang. Áður en Annþór gat stunið upp: „Viltu hafa rifu?“ hefur Geir Jón opnað upp á gátt svo Annþór myndi örugglega sjá þegar hann danglaði kylfunni sinni í rúðuna í takt við afmælissönginn á leið fram ganginn.

Hægt og rólega um nóttina náði hinn svifaseini heili Annþórs að leggja saman tvo og tvo. Og um morguninn var hann strokinn og hafði vafalaust Biblíuna með sér.

Mig langar voðamikið til að trúa því að Geir Jón hafi laumað staðsetningartæki innan í Biblíuna sem hann gaf Annþóri, en jafnvel þótt þeir hafi þurft að beita minna spennandi aðferðum við að finna hann (til dæmis með því að skoða síðustu símtöl út frá löggustöðinni) þá er afleiðingin sú sama: Geir Jón mun ekki eiga í neinum vandræðum með að sannfæra dómara um að Annþór sé þrælsekur. Skiptir þá engu hve vel hann hagar sér hér eftir eða hve margir róma gæsku hans. Saklausir menn flýja ekki úr fangelsum nóttina áður en ákveða á hvort framlengja eigi gæsluvarðhald yfir þeim.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Snérist þetta um sakleysi?

..og ég sem hélt að þetta væri bara spurning um að geta haldið gott afmælispartí...

Ágúst Borgþór sagði...

Það eru ansi góðir pistlar hérna innan um. Bæði þessi og sérstaklega sá um Roswell-málið. Að ógleymdum Nýju fötum Kalífans.