5. febrúar 2008

Enn er bitist um Rottumanninn


Eiríkur Örn Norðdahl hefur bæst í þann ört fríkkandi flokk fólks sem hefur skoðun á bakþankanum mínum um Rottumanninn. Í (langri) færslu á heimasíðu sinni segist hann fyrirverða sig fyrir að eyða tíma sínum í það sem skiptir hann engu og tekur borgarstjórnarskiptin sem dæmi um slíkt. Honum finnst, sem von er, slæmt að eyða orku sinni í að fylgjast með jafn smáskítlegu máli þegar hann gæti verið að lesa eða yrkja eða gera eitthvað annað sem dillar betur í takt við hans viðkvæma listamannseðli.


Umfjöllun hans um bakþankann minn (sem er umtalsvert lengri en bakþankinn sjálfur) fylgir úr hlaði ekki ómerkari maður en Aristóteles. Það er dálítið viðeigandi. Eiríkur, sem vafalaust er afar vel lesinn í Aristótelesi, sér ástæðu til að vitna í skoðanir gamla mannsins á stíl. Nú er það svo að Aristóteles var nokkuð þekktur fyrir vel stíluð rit. Hann er síðan hreint og beint frægur fyrir það að hvorki finnst tangur né tetur af þessum vel stíluðu ritum. Allt sem honum er eignað er einstaklega illa stílað, tyrfið og leiðinlegt — enda fyrst og fremst fyrirlestrapunktar og glósur til einkanota. Eitt brást Aristótelesi þó aldrei — og það var rökvísin. Meira að segja þegar hann hafði rangt fyrir sér tókst honum að gera það á einstaklega rökréttan hátt. Enginn hefur betur rangt fyrir sér en hann.


Hún er til dæmis dásamleg greining Aristótelesar á unglingum (sem EÖN þekkir vafalaust þar sem það viðfangsefni varð á endanum sá snertipunktur sem hann valdi á milli mín og sín [og Aristótelesar?]) í þessum pistli. Í stuttu máli má segja að Aristóteles hefði líklega riðið öllum unglingspiltum fyrr í samdrykkjum en Rottumanninum. Svo mikið var honum í nöp við rottumannstýpuna.


En EÖN hefði ekki látið deigan síga hefði honum verið boðinn lítill Rottumaður svona rétt á meðan hann hvíldi sig á milli ræðuhalda. Og hann hefði ekki einu sinni deplað auga yfir þeirri spennu sem þar hefði myndast á milli boðorða Aristótelesar og lífshátta sjálfs sín. Því þótt EÖN hafi líklega oftar rétt fyrir sér en Aristóteles, þá tekst honum yfirleitt að gera það með þeim hætti að það er fullkomlega laust við rökvísi.


Það að EÖN sjái ekki að sagan af Rottumanni Freuds eigi sér neina samsvörun við atvikið í Ráðhúsinu þýðir að sjálfsögðu ekki að enga slíka samsvörun sé að finna. Og ekki dettur mér í hug að neita því að Rottumaðurinn hafi mælt fyrir munna ansi margra sem var eins innanbrjósts (þótt EÖN sé að sjálfsögðu ekki þeirra á meðal, því hann hefur engan áhuga á málinu og ástríður hans bifast því ekki með blóðhita Rottumannsins). Rottur eru enda selskapsdýr.


EÖN reynir að skapa spennu á milli þess fagra og þess sanna og stilla mér (ásamt Oscari Wilde) og Rottumanninum upp á andstæðum pólum. EÖN sér einhverja fegurð í einlægninni sem blasti við í blasti Rottumannsins.


Það sem EÖN ekki sér er að bakþankinn minn var hreint ekkert settur til höfuðs Rottumanninum. Ég get að vísu sagt með fullkominni einlægni að mér stendur algjörlega á sama um einlægustu tilfinningar hans. Það hreyfir ekkert við mér hvort honum var verulega misboðið eða hvort honum var stórkostlega misboðið.


Pistill minn var um alla hina. Dag, sem sat með sína streptókokka og sussaði föðurlega á liðið á svölunum. Svandísi sem veifaði til lýðsins eins og hún væri í stífbónuðum leðurstígvélum og Reykjavík væri Nürnberg. Binga sem sat sveittur og leitaði útgönguleiða. Margréti sem varð svo ánægð þegar einhver vildi loks hafa hana með í einhverju að hún kastaði sér á skeljarnar og kyssti kjúkurnar á vildarvinum sínum. Pistillinn var um þau viðbrögð Tjarnarkvartettsins að eggja unglingana til ófriðar, að berja á óvinum sínum með sak- og vitlausum þriðja aðila — í stað þess að taka sjálft slaginn.


Það sem gerðist í Ráðhúsinu þennan dag var á margan hátt sögulegt. Og sögulegir atburðir kalla á söguleg viðbrögð. Rottufólkið eyðilagði tækifærði til þess. Það hefði á margan hátt farið betur á því að EÖN hefði fylgt þrám sínum alla leið eftir. Haft bara áfram slökkt á sjónvarpinu og sleppt því að lesa Fréttablaðið. Þannig hefði hann ekki þurft að sólunda allri þessar orku í eitthvað sem skiptir hann engu máli, en mig og Rottumanninn talsverðu. Og þannig hefði hann getað komist hjá því að byggja heila ritgerð á því einu að honum hafi (ranglega) þótt eitt líklegra en annað, en það er á endanum eina botnneglan í skútunni hans.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er eitthvað svo krúttlegt að sjá ungt fólk vera að leggja út frá Freud; eins og að lesa um Shelley sem stúderaði Cornelius Agrippa, haldinn þeim misskilningi að hann væri merkasti vísindamaður samtímans.

Óli Sindri sagði...

„Leggja út frá”, já. Svona á sama hátt og ef ég vitnaði í Bíbí Ólafsdóttur væri ég að leggja út frá Vigdísi Grímsdóttur og viðurkenna snilli hennar?

Nafnlaus sagði...

Það er eitthvað svo notalegt að sjá miðaldra karlmenn tala um löngu liðna tíð eins og þeir séu eitthvað markvert nær henni í tilvist en þeir sem eru yngri.

Nafnlaus sagði...

Djöfull tókstu EÖN í karphúsið með þessum pistli. Gaman að þessu.

Nafnlaus sagði...

Gott og vel. Þú tókst EÖN í nefið og lagðir til nokkrar nýjar skýringar á fjármörkum.

En að "það sem gerðist í Ráðhúsinu þennan dag var á margan hátt sögulegt. Og sögulegir atburðir kalla á söguleg viðbrögð.", virðist byggja á von um að Dagur sjálfur hefði stokkið fram og æpt eitthvað sögulegt. Eða einhver annar en "Rottumaðurinn".

Sú varð ekki raunin. Enn og aftur erum við minnt á hvað tilveran er banal.

Hvað er fleira í fréttum?

Nafnlaus sagði...

ÞÚ ERT EKKERT FOKKING SNIÐUGUR!

Nafnlaus sagði...

Þetta er önnur eða þriðja bloggfærslan sem Ólafur Rotta Ólafsson spanderar í að útskýra sín skrif sem enginn skilur almennilega — allra síst hann sjálfur. Óli Rotta kom út úr Mengelluskápnum með látum og brotlenti á baksíðu Fréttablaðsins. Hann hefur ekkert að segja en öfundast út í fólk sem þorir að tala upphátt á almannafæri. Önnur eins tómhyggja og napur skrúðmælgi þessa drengs hafa ekki komist á prent síðan Kóraninn var gefinn út á færeysku. Nú endurbirtir hann bloggfærslur sínar á mörgum stöðum í einu í von um athygli. Ljóðskáldið EÖN beit á agnið. Því miður.