Verkföll eru á Íslandi orðið nokkuð fátíð. Hér má sjá yfirlit verkfalla í líftíma mínum:
Fjöldi verkfalla árin 1976 og 1977 er undanfari stórsigurs vinstri manna í kosningunum 1978. Spennan í þjóðfélaginu var þó enn veruleg og veruleg gliðnun var í allar áttir á árunum sem fylgdu. Verkföll komu í bylgjum allt fram að aldamótum. Eftir aldamót hurfu verkföll eiginlega eins og dögg fyrir sólu ef undan er skilið verkfall grunnskólakennara árið 2004.
Fjöldi verkfalla segir þó ekki alla söguna um alvarleika þeirra. Tímalengd skiptir líka máli og fjöldi þeirra sem fara í verkföll.
Fjöldi einstaklinga í verkfalli |
Sá hópur á þessari mynd sem jafnast best á við hjúkrunarfræðinga er hópurinn sem fór í verkfall 1986. Hjúkrunarfræðingar eru ekki nema sjónarmun fleiri en það. Kennarar eru hinsvegar mun stærri hópur, eins og sést á verkfalli grunnskólakennara 2004.
Það er ekki tilviljun að kennarar héldu uppteknum verkfallshætti eftir aldamót þegar aðrir hættu. Samband kennara við launagreiðendur sína er stórundarlegt og baneitrað. Á tímabilinu hér að ofan eru grunnskólakennarar (að hluta eða í heild) í verkföllum að meðaltali með fimm ára fresti. Síðan síðasta verkfall skall á verða í haust liðin níu ár.
Af þessu má sjá að engin starfstétt á Íslandi fer gjarnar í verkföll en grunnskólakennarar. Orsökin er vafalítið tvíþætt. Annarsvegar hljóta kennarar að vera aggresívir í sínum aðgerðum, hinsvegar hljóta þeir sem reka skólana að vera óhemju óliðlegir í samningaviðræðum.
Það versta er kannski það að síðan 1977 hafa verkföll grunnskólakennara orðið sífellt lengri. Fyrsta verkfallið á þessum tíma leystist á fjórtán dögum. Síðasta verkfall tók 43 daga.
Mynd: Oddur S. Jakobsson, sjá hér. |
Vandinn nú er sá að glíma kennara og sveitarfélaga snýst ekki bara um laun. Stóri slagurinn núna er skilgreining á kennarastarfinu. Báðir aðilar eru sammála um að störf kennara hafi breyst mikið á undanförnum árum og áratugum. Margar reglur hafa tekið gildi um réttindi barna og foreldra sem kennarar koma að framkvæmd á. Sveitarfélög segja að það þurfi að skilgreina kennarastarfið upp á nýtt til að skóli geti lagað sig að þessum aðstæðum og búið til áreynslulaust starfsumhverfi. Kennarar segja á móti að það sé ágætt að búið sé að viðurkenna það að kennarar séu að vinna mörg störf sem aldrei var samið um. Það sé því ágætur upphafspunktur að kennarar geri bara það sem þeim ber og svo megi tala um allt hitt.
Þarna á milli er ægilega langt. Kennarasambandið er í raun að taka sér stöðu með því að kennari kenni aðeins þær stundir sem honum ber og noti undirbúningstímann eftir eigin höfði. Skólastjórar hafi svo til ráðstöfunar þann tíma sem kjarasamningar segja til um. Sveitarfélögin vilja setja allan tíma kennarans undir verkstjórn skólastjóra með einhverjum hætti.
Sjálfur er ég sannfærður um að seinni leiðin er betri. Vandinn er sá að til þess að hana sé hægt að fara þarf að vera til staðar traust. Traust um að skólastjórar nýti „frelsið“ ekki til að slá af gæðum skólastarfs. Traust um að sveitarfélagið noti sér ekki sveigjanleikann til að spara á kostnað skólastarfs.
Og það ríkir ekkert traust.
Samband kennara við yfirvöld skólamála hefur aldrei verið byggt á trausti eins og sést á hinum tíðu verkföllum. Það byggir á vantrausti og átökum.
Skólastjórar hafa (og þetta get ég fullyrt án minnsta efa) látið sparnað ganga fyrir faglegu starfi. Sveitarfélög hafa horft aðgerðarlaus á það og kynt undir með kröfum um meiri sparnað, þrátt fyrir að augljóslega sé farið að ganga gegn rétti barna.
Auk þess eru innviðir kerfisins orðnir gamlir og lúnir, endurnýjun lítil sem engin og tækjabúnaður úreltur fyrir mörgum árum.
Með öðrum orðum: Við virðumst ekki geta bætt skólana okkar vegna þess að það hefur aldrei verið lögð áhersla á það að byggja upp traust á milli aðila í skólasamfélaginu. Samskipti hafa einkennst af átökum og á stundum undirlægjuhætti og óheiðarleika. Svo langt hefur þetta gengið að sumir sveitarstjórnarmenn hafa verið með undirróður gegn kennurum opinberlega. Og þetta gerðist allt þrátt fyrir að samningamenn kennara hefðu markvisst reynt að fara þessa leið.
Hvað gerist þá?
Menn hafa tvo kosti.
Annar er sá að kennarasambandið og sveitarfélögin fari í það verkefni að byggja markvisst upp traust. Það er ekki einfalt mál og báðir aðilar þurfa að gera ýmislegt sem þeim fellur ekki og í felst áhætta.
Hinn kosturinn er að mölva niður núverandi kerfi og byrja upp á nýtt. Meiri einkarekstur er þar augljósasta lausnin. Eða sérsamningar einstakra sveitarfélaga.
Fyrri leiðin er ákjósanlegri. Ég held samt að því miður sé ekki nægur áhugi fyrir henni til þess að hlutirnir geti gerst á þeim hraða sem þarf.
Það er nefnilega ekki nóg fyrir okkur kennara að koma okkur bara fyrir í skotgröfunum einu sinni enn og horfa á sveitarfélögin gera það sama. Það þarf að rjúfa þennan vítahring sem löngu er orðinn til og er fyrir löngu farinn að valda gríðarlegum skemmdum á skólakerfinu.
Það fyrirsjáanlegasta er þó þetta: Hið óvenjulanga níu ára hlé á kennaraverkföllum er brátt á enda.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli