15. mars 2008

Sleðinn


Ég sit blessunarlega sjaldan í bíl með yngri bróður mínum. Þá sjaldan að það gerist, og ef ég er í hlutverki farþegans, fyllist hjarta mitt sorg og skelfingu. Ekki fyrir mína hönd heldur allra þeirra sakleysingja sem sitja grandvaralausir undir stýri og humma rólega með ríkisútvarpinu án þess að hafa hugmynd um það þvílíkt skaðræðisdýr er mætt á malbikið.

Ég neyddist til að deila bíl með Óla áðan eftir að hafa látið til leiðast að fara með honum í IKEA að borða kjötbollur. Allt gekk stóráfallalaust framan af en skyndilega sá hann tækifæri til að fá útrás fyrir eitthvað af götugrimmd sinni. Bíll frá ferðaþjónustu fatlaðra renndi upp aðrein og gerði sig líklegan (með stefnuljósi) til að koma yfir á akrein okkar bræðra. Við Óli vorum staddir um 50 metrum fyrir aftan næsta bíl, akreinin vinstra megin við okkur var auð að undanskildum bíl sem nálgaðist rólega úr fjarska. Hægt og varfærið byrjaði ferðaþjónustubíllinn að mjaka sér á milli okkar og bílsins á undan. Kringluleitt og brosmilt andlit þroskahefts manns blasti við í hliðarglugga.

Í einu vetfangi mældi Óli út allar aðstæður. Hann teygði sig í útvarpið og lækkaði í því. Hörkudrættir komu á svip hans og mér heyrðist hann muldra: "Fari það hoppandi sem..." Því næst stappaði hann á bensíngjöfinni og bíllinn tróðst öskrandi upp að bílnum á undan okkur. Með erfiðismunum tókst mér að hnika höfðinu til hliðar í ógnvænlegum aðdráttarkraftinum sem þrýsti hnakka mínum inn í púðann. Skelfingu lostið andlit þess þroskahefta var límt við hnakka bílstjórans sem barðist við að ná stjórn á bílnum eftir að hafa hrökklast út á aðreinina aftur. Æðandi stefndi ferðaþjónustubíllinn niður ört þverrandi reinina og brátt þaut hann aftur fyrir bílinn okkar.

Óli hægði þá fyrst ferðina, hækkaði í útvarpinu, brosti og sveigði yfir á vinstri akrein.

Ferðinni var heitið niður í bæ. Þar heimtaði Óli að lagt yrði í námunda við öldurhús. Þar sem ég var enn stjarfur af hræðslu mótmælti ég ekki. Óli hoppaði glaður út úr bílnum og kveikti sér í vindlingi. Ferðinni var heitið í bókabúð. Brátt sé ég að Óli er farinn að líta yfir öxlina á sér í sífellu og líta svo fúllyndur aftur fram tuðandi eitthvað sem ég ekki heyrði. Loks skildi ég hvað var á seyði. Lítið barn hjalaði við pabba sinn sem ýtti því í vagni upp götuna. Eftir því sem barnið nálgaðist okkur meira (en við höfðum gengið í hægðum okkar) heyrðist meira og meira í því. Gleðihljómur barnsraddarinnar var meira en Óli þoldi. Hann spretti úr spori til að komast sem lengst frá því en sígarettumæðin hélt aftur af honum. Brátt var barnið komið á hæla okkar á ný. Óli varð nú næstum afmyndaður í framan af gremju. Án þess að ég gæti komið vörnum við stakk hann sér niður hliðargötu og blés þykkum reykjarmekki í veg fyrir barnavagninn, sem nú kom brunandi upp götuna. Flissandi hlustaði Óli á barnið hætta hjalinu og byrja að hósta.

Ég stóð stjarfur á horninu og horfði á eftir bróður mínum. Eftir að hafa lýst vanþóknun minni með nokkrum fátæklegum orðum (og hótað að opinbera hans innra mann) virtist hann verða hugsi. Hann kastaði sígarettustubbinum í götuna, néri á honum tá, og sagði hugsandi: "Sleppirðu því að blogga um það ef ég gef þér kakó?"

Engin ummæli: