17. mars 2008
Fullkominn dauði
Fjölmiðlar birtu á dögunum mynd af franskri konu sem var með andlit eins og padda. Hún hélt á ljósmynd af sjálfri sér ópöddulegri og fréttatextinn greindi frá þeirri ósk hennar að fá að deyja.
Flest ríki leggja bann við líknardrápum líkt og sjálfsmorðum forðum. Færa má rök fyrir því að eiður lækna banni þeim þátttöku í líknardrápum einnig. Líknardráp hafa verið stunduð ólöglega um langa hríð. Fyrir tæpu ári slapp t.d. úr fangelsi í BNA dauðalæknirinn Jack Kervokian, sem kvaðst hafa hjálpað meira en 130 manneskjum að deyja.
Í Sviss er líknardráp löglegt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þar eru starfandi samtök sem kallast Dignitas og eru rekin í húsi við hlið vændishúss. Stofnandi þeirra var mannréttindalögmaður sem vildi hjálpa dauðvona fólki að velja sér dauðdaga sem reisn væri yfir. Fljótlega myndaðist vísir að sjálfsmorðstúrisma í Sviss.
Ef sjálfsmorðatíðni í Sviss er borin saman við önnur lönd þá sést að hún er hin 19. hæsta í heiminum með rúmlega 17 sjálfsmorð á hverja 100.000 íbúa á ári (Ísland er með 12 í 37. sæti). Staða Sviss virðist þó eðlileg í ljósi þess að það lendir mitt á milli Frakklands og Austurríkis. Litáen er langefst með rúmlega 40 sjálfsmorð á 100.000 íbúa, þar af 70 hjá körlum. Af Norðurlöndunum þarf engum að koma á óvart að Finnland er hæst með rúmlega 20 sjálfsmorð á 100.000 íbúa, þar af 32 hjá körlum. Athygli vekur að Kína er eina ríkið í heiminum þar sem konur eru markvert líklegri til að fremja sjálfsmorð en karlar (25 á móti 20 hjá körlum). Það Norðurlandanna sem hefur fæst sjálfsmorð er Noregur, Ísland er þar rétt fyrir ofan.
Hækkandi aldur íbúa vestrænna samfélaga mun vafalaust leiða af sér nýtt horf við líknardrápum. Innan fárra ára verður litið á þau sem eðlilegan og æskilegan hlut, bæði frá hagnýtu og manneskjulegu sjónarhorni (helmingur 85 ára fólks er t.d. með Alzheimers). Það er auðvitað tvíeggjað sverð. Kjósi fólk í auknum mæli að ljúka lífinu áður en heilsan brestur algerlega hlýtur að draga úr þeirri ofuráherslu sem annars yrði lögð á lækningu öldrunarsjúkdóma. Öll lyfjafyrirtæki heimsins hljóta að sjá mesta að mesti vaxtarbroddurinn er í sjúkdómum aldraðra. Draumaneytandi lyfja er sá sem hefur safnað sjóði eftir langa starfsæfi og hefur öllu að tapa - og það hratt. Það er því viðbúið að fólk innan öldrunariðnaðarins muni standa á móti hugmyndum um fjölgun líknardrápa.
Breski íhaldskólfurinn Michael Portillo gerði þátt í Horizon-röðinni um hina fullkomnu aftökuaðferð. Með hjálp vísindamanna leitaði hann að þeirri aðferð við aftökur manna sem veldur minnstum kvölum. Hann skoðaði hengingar, gasklefa, banvænar sprautur og rafmagnsstóla. Af þessum var henging best að því gefnu að lengd kaðalsins væri rétt reiknuð. Sem var erfitt í ljósi þess að mismunandi ríki nota mismunandi reiknireglur og einstaklingsmunur gerir alla útreikninga erfiða. Það sem kippir hausnum af einum getur valdið langvarandi og kvalafullu dauðastríði hjá öðrum. Eiturgas drepur þig þá aðeins sársaukalaust ef þú hjálpar til og andar því að þér rólega og yfirvegað, reynir þú að halda niðri í þér andanum eða streitast á móti verða kvalirnar miklar og nær útilokað er að bregðast öðruvísi við. Rafmagnsstóllinn er tómt klúður og margt bendir til þess að brotalöm sé á framkvæmd sprautuaftaka, ekki síst vegna þess að víða neita læknar að taka þátt og því hefur verið gripið til þess ráðs að nota sérmenntaða bráðatækna, sem yfirvöld segja að séu alveg nógu góðir, en reynslan sýnir að hafi klúðrað hverri aftökunni á fætur annarri.
Portillo athugaði ýmsar aftökuaðferðir, þar á meðal þá að láta menn verða fyrir svo miklum g-krafti í skilvindu að hjartað megni ekki að draga blóðið upp í heilann. Það reyndist nokkuð óþægilegt. En í framhaldi af því fann hann hina fullkomnu aftökuaðferð.
Dásamlegasta aftökuaðferðin er sú að láta mann í klefa eða grímu með eðalgastegundum. Þau eru lyktarlaus og einkennalaus og það eina sem einstaklingurinn upplifir er ringlandi sem brátt breytist í ofsakæti, meðvitundarleysi og dauða. Portillo prófaði þetta á sjálfum sér með því að sitja í þrýstiklefa með sáralitlu súrefni. Fyrst var allt með felldu, brátt gat hann hvorki sett stjörnulagað leikfang í rétt gat né dregið þrjá af átta. Loks, þegar hann var að því kominn að missa meðvitund, reyndist ómögulegt að fá hann til að bjarga lífi sínu með eindfaldri aðgerð. Hann sat aðgerðarlaus og glotti þegar honum var ítrekað sagt að hann myndi deyja nema hann gerði ákveðinn hlut. Þar kom að honum var bjargað af öðrum og þegar hann komst til sjálfs síns var minningin þannig að hann hefði staðið sig ofsalega vel, ekki bara leyst allar þrautirnar heldur haft betur en rannsóknarmennirnir í óhlýðni sinni.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvílíkt ágæti slík aftökuaðferð væri. Hún væri meira að segja ódýrari en þær aftökuaðferðir sem nú eru ástundaðar (að hengingu undanskilinni). Eigi að drepa menn á annað borð hlýtur eitthvað svona að vera lausnin.
Það varð Portillo ekki til lítillar furðu þegar hann ferðaðist til heims aftökunnar, BNA, og kynnti niðurstöður sínar. Svarið var: "Hví í fjandanum ættum við að vilja glæpamenn sem fara hlæjandi yfir móðuna miklu? Ekki hlóu fórnarlömb þeirra á dauðastundinni!"
Æskilegast væri auðvitað að hvorttveggja væri afnumið, dauðarefsing og ævilangt fangelsi. Eins væri æskilegt að líknardráp væri leyft. Þar væri hægt að nota hlátursmorðvélina í göfugum tilgangi.
Horizon-þáttinn má sjá hér.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
HA ? 20 af hverjum 100.000 í Finnlandi slátra sér, og þar af 32 karlar ? Eru þá 32 karlar af þessum 20 einstaklingum sem slátra sér ? hmm.. Ég er náttúrulega lélegastur á Íslandi í stærðfræði, en mér finnst þetta ekki alveg ganga upp....eða hvað ?
Annars sé ég vel fyrir mér, að þetta geti orðið Trend, að láta slátra sér með eðalgastegundum. Um leið og heróínistar og annað vímusjúkt fólk les svona dásamlegar lýsingar á þessari "vímu", þá langar öllum að prófa...
Þá fara forvarnarfulltrúar af stað og reyna að útskýra fyrir fólki hvað þetta sé hættulegt, og að það þurfi ekki nema eitt skipti og ble ble... hehe.. það verður gaman að fylgjast með því :)
kv, Bóla
Tölfræðin er augljós ef þú hefur í huga að karlar sem drepa sig eru yfirleitt yngri en konurnar.
Þetta er auðvitað afskaplega illa orðað hjá bróður mínum, skólastjóranum, en að sama skapi einfalt. Af 100.000 manna hópi eingöngu skipuðum karlmönnum myndu 32 fyrirfara sér. Sem þýðir að ef við gerum ráð fyrir jöfnu hlutfalli kynja (sem við höfum reyndar ekki upplýsingar um) myndu 8 fyrirfara sér í jafnstórum hópi sem eingöngu væri skipaður konum. Meðaltal 100.000 manna blandaðs úrtaks eru 20 sjálfsmorð.
já, vertu ekkert að bera í bætifláka fyrir þetta. Þetta var ekkert illa orðað...þetta var bara vitlaust!!
Það er ég sem er stærðfræðingurinn í fjölskyldunni og ætti því að þekkja þetta :)
kv, Bóla
Skrifa ummæli