3. september 2011

Samantekt á rökræðu okkar Skúla rasista

Skúli Jakobsson er stoltur af því að vera rasisti. Í kjölfar umræðna á heimasíðu Evu Hauksdóttur bauð ég þjóðernissinnum og rasistum að rökræða málin af yfirvegun á Maurildunum. Skúli þekktist boðið.

Rökræðan er orðin ansi löng.

Hér ætla ég að setja örstutt ágrip af henni jafnóðum og henni vindur fram. Rökræðan sjálf fer svo fram hér og eru nýjustu innlegg hvors um sig einkennd með bláum lit.

Rökræðan fram að þessu:

Ragnar Þór
Þú segir að það sem komi sér vel fyrir hvítt fólk sé hin æðsta dygð. Hvernig skilgreinir þú að „koma sér vel“?

Skúli
Það er viðurkennd og heilög skylda hverrar kynslóðar að fjölga sér, styrkja og tryggja viðhald hvíts fólks. Þetta gildir um allt líf.

Ragnar Þór
Nú átt þú engin börn, ert þú að svíkjast undan skyldu með því að fjölga þér ekki?

Skúli
Nei, ég get styrkt og tryggt þótt ég fjölgi ekki. En ég er enn frjór svo það er ekki öll nótt úti enn.

Ragnar Þór
Eru þeir, sem ekki geta átt „hvít“ börn, undanþegnir því að fjölga, (styrkja og tryggja) hvítu fólki?

Skúli
Nei, alls ekki. Skyldan er þá að styrkja og tryggja.

Ragnar Þór
Nú geta menn átt frjó afkvæmi með hvaða kynþætti sem er – og teljast því til sömu tegundar samkvæmt líffræði. Hvers vegna að halda sig bara við hvíta?

Skúli
Það er viðurkennd og heilög skylda hverrar kynslóðar að fjölga sér, styrkja og tryggja viðhald hvíts fólks. Þetta gildir um allt líf. Raunvísindin geta vel greint sundur kynþætti.

Ragnar Þór
Á allt líf á jörðinni að styðja við hvíta kynstofninn?

Skúli
Nei, bjáni. Hvítt fólk á að styðja við hvítakynstofninn. Aðrar tegundir sjá um sig. Það er lögmál alls lífs á jörðinni?

Ragnar Þór
Ef þessi lögmál eru til, hvaða lögmál ertu að tala um?

Skúli
Nú, t.d. mannfjöldakenningin, erfðalögmál Mendels, lögmál Yerrels og margt fleira. Þú getur lesið þér til.

Ragnar Þór
Náttúrulögmálin, og sérstaklega erfðalögmál Mendels og þróunarkenning Darwins, styðja ekki rasisma. Þvert á móti snúast þau um að hlutverk kynæxlunar sé að æxlast við sem fjölbreyttasta maka til þess að upp safnist sterkustu genin úr ýmsum áttum. Varðveisla einstakra gena er það sem málið snýst um en ekki kynþátta. Vísindin styðja ekki rasisma.

Skúli
Það er rétt. Vísindin styðja ekki rasisma en hafa hvítir menn ekki einstök gen? Og hvað með landnámshænuna? Íslenska hestinn og kúna? Vilja menn ekki varðveita þetta allt?

Ragnar Þór
Einstök gen í þessu samhengi merkir ekki afburðagen eða gen með varðveislugildi – heldur eitt og eitt gen. Þau varðveitast með náttúruvali. Náttúran safnar „hæfustu“ genunum saman ef hún fær nóg framboð. Of lítið framboð veldur úrkynjun. Ræktun sérstakra kynstofna getur orðið vegna landfræðilegrar einangrunar eða vals manna. Munurinn á mönnum og kúm er að menn eru ekki einnota skepnur sem hægt er að rækta með einn skilgreindan tilgang í huga. Auk þess fer ræktun eins kynstofns á svig við öll mannréttindi. Telur þú eðlilegt að óskir fárra manna um hreinræktun hvítra manna réttlæti afnám mikilvægra mannréttinda?

Skúli
Nei, fólk á að vera frjálst. En það á líka að vera ábyrgt og upplýst um orsakir og afleiðingar athafna sinna. Er ekki líka mannréttindabrot að hvetja til og stuðla að þjóðarmorði á hvítum? Fólk er blindað af rétthugsun. Þú skyldir þó ekki vera gamall kommi?

Ragnar Þór
Nei, ég er ekki kommi. Ég var vinstri maður þegar ég var yngri – en mjög lélegur og óþægur. Ég reyni að gera kröfur til mín um að hafa innistæður fyrir skoðunum mínum. Getur þú sagt það sama, Skúli? En  hugmynd þín um að mannréttindi styðji skoðun þína er jafn röng og sú hugmynd að vísindin gerðu það. Mannréttindi eru einstaklingsréttindi. Réttur til fjölbreytni. Réttur eins til að skerða rétt annarra er ekki mannréttindi heldur afnám mannréttinda. Mannréttindi má við viss tækifæri skerða. Telur þú að hreinræktun hvíts fólks réttlæti mannréttindaskerðingu?

Skúli
Ekkert er mínum hvíta huga mikilvægara en varðveisla hins hvíta kynstofns.

Ragnar Þór
Telur þú að þér beri að berjast fyrir varðveislu hans?

Skúli
Mér ber skylda til að fara eftir sannfæringu minni og berjast gegn útrýmingu hvítra. Sá sem hvetur til blöndunar kynþátta er að hvetja til þjóðarmorðs, það er skýrt skilgreindur og óumdeilanlegur glæpur. Ert þú glæpamaður, Ragnar?

Ragnar Þór
Ég skora á alla hvíta Íslendinga að eignast börn með fólki af öðrum kynþáttum ef það er vilji beggja.
Kærðu mig. 

2 ummæli:

Eva sagði...

Til þess að kæra Ragnar Þór fyrir að hvetja til þjóðarmorðs, þarf séra Skúli fyrst að sýna fram á að þjóðarmorð sé yfirvofandi.

Næsta spurning hlýtur því að vera þessi; hvernig reiknar Skúli það út að hvíti maðurinn sé í útrýmingarhættu?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það kemur væntanlega í ljós við réttarhöldin.