27. júlí 2011

Stjórnarskrá fyrir allaÞegar hafist var handa við að semja stjórnarskrá í Stjórnlagaráði þá lá að mér vitandi ekki fyrir (og gerir kannski ekki enn) hvað yrði svo gert við skrána. Hvort þjóðin fengi að taka afstöðu til einstakra greina eða hvort skráin yrði í heild samþykkt – eða synjað. Þar sem umboð ráðsins var nokkuð vafasamt er erfitt að segja að vinna ráðsins bindi hendur ráðamanna eða geri sérstaka kröfu á almenning um að sætta sig við skrána eins og hún er.

Núna er þjóðin byrjuð að kasta skránni á milli sín. Eins og venjan er horfa menn fyrst á það sem þeim mislíkar. Og einhverjir ætla að segja nei vegna þess að þeim mislíkar svo mjög við einstök ákvæði skrárinnar.

Nú er það svo að enginn af fulltrúunum 25 í stjórnlagaráði fékk vilja sínum framgengt um allt. Allir urðu að gefa eftir. Stundum í mikilvægum málum. Það er enda svo í fjölbreyttu lýðræðisríki að menn hafast ólíkt að – og vilja hafast ólíkt að. Ég myndi til að mynda aldrei sættast við það að taka sjálfslýsingu Matta eða Daníels upp sem mína eigin. Þeir eru ekki ég. Og þótt við eigum sitthvað sameiginlegt þá eru ýmsir veigamiklir þættir sem greina okkur að. Sumt á ég síðan sameiginlegt með Matta sem greinir okkur frá Daníel (hann er miklum mun vinstri sinnaðri en við tveir) á meðan annað tengir okkur Daníel og skilur Matta frá okkur (t.d. viðhorf til menntamála).

Stjórnarskrá er, þegar allt kemur til alls, lýsing okkar á okkur sjálfum. Ekki sem einstaklingum – heldur þjóð. Og þar sem hvorki ég, Matti né Daníel erum þjóðin – í neinum skilningi þess orðs – þá stemmir lýsingin misvel við okkur.

Og ef við gerumst nú dálítið metnaðarfull og ákveðum að stjórnarskráin skuli ekki aðeins vera lýsing á þjóðinni – heldur um leið lýsing á því hvað þjóðin vill vera, þá vandast málið. Því við höfum vanið okkur á það að eyða jafnmikilli orku í að skilgreina hvað við viljum vera – og hvað við viljum ekki að aðrir séu. Þegar maður á annað borð hefur smitast af hugsjón er mjög erfitt að una öðrum þess að ganga blindir eða áhugalausir gagnvart sömu hugsjón.

En það er gjarnan eðli hugsjóna – að þótt þær orki á þann sem hefur smitast af þeim sem óumdeilanlegur sannleikur, þá eru þær oft allt annað en sjálfsagðar þeim sem ekki eru í sömu sporum. Þær geta jafnvel verið andstyggilegar, kjánalegar eða ys og þys út af engu í augum annarra en okkar sjálfs.

Og hin nýja stjórnarskrá er ekki fullkomin. En ófullkomnun hennar kemur ekki til af því að fólkið sem skrifaði hana var huglaust eða hrætt við átök eða prinsippafstöðu. Ófullkomnun stjórnarskrárinnar stafar af því að þjóðin sjálf er ófullkomin. Og hún er ekkert á leiðinni að verða neitt annað.

Dæmi um ófullkomna en áreiðanlega næstum óumdeilda grein í nýju stjórnarskránni er sú tuttugasta og fjórða:

„Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.“

Hér telja höfundar örugglega að þeir séu að gera tómt gagn. En menntamálanörd eins og ég (og Daníel kannski líka) fá hálfgerðan svima yfir hvað þetta er nú gamaldags hugsun. Það er greinilegt að það var enginn byltingarsinnaður menntafrömuður í ráðinu. Til hvers í fjandanum að setja í stjórnarskrá að allir eigi að fá „almenna menntun“? Hvað er það? Jú, það er einhverskonar menntun sem er sameiginleg öllum þorra fólks. One size fits all. Og svo sauma menn blúndur ofan á það. Þarna hefði mátt sýna kjark og segja einfaldlega að allir ættu að fá menntun við sitt hæfi. Punktur. Enda er varla hægt að segja að almenn menntun sé til. Og ef hún er til þá er alls ekki sjálfgefið að hún ætti að vera til.

Annað ákvæði sem við fyrstu sýn virðist ekki stuða neinn er greinin á undan:

„Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.
Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.“

Hér er fótunum kippt undan fyrri málsgreininni með þeirri seinni. Eins og heilbrigði, andlegt og líkamlegt, snerti fyrst og fremst heilbrigðisþjónustu. Hér mundi margt heilsufríkið kvarta og segja að löngu sé orðið tímabært að við sem þjóð förum að tækla heilbrigðismál með gáfulegri hætti en við höfum gert. Í stað þess að einblína á rétt fólks til að láta lappa upp á sig þá eigi að setja allt fútt í það að koma í veg fyrir að fólk skemmi sig til að byrja með. Það eigi að kenna fólki að bera ábyrgð á eigin heilsu, jafnt andlegri sem líkamlegri. Lyfta fólki upp úr þeirri sýn að heilbrigðisþjónusta snúsist um að láta sérfræðinga í hvítum sloppum leggja tímabundnar hindranir í veg sláttumannsins. Og fá fólk til að hlaupa sjálft frá honum.

Hér er síðan grein, öllu umdeilanlegri:

„Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.“

Samkvæmt þessu nýtur litla krílið sem sparkar í bumbuna á mömmu sinni síðustu vikurnar fyrir fæðingu engrar lífhelgi. Er ekki manneskja. Ekki fyrr en það kemur út undir bert loft. Þá skyndilega viðurkennir Ísland þig sem manneskju með einhver réttindi. En hér er vísvitandi verið að taka afstöðu gegn þeim sem af heitri sannfæringu trúa að mannslífið sé heilagt svo gott sem frá getnaði. Nú er það svo að ég held að meirihluti Íslendinga líti svo á að rétt ófædd börn séu í raun og veru lifandi einstaklingar sem beri að vernda með öllum tiltækum ráðum frá illri meðferð eða háska. En það er einfaldlega of erfitt að setja mörkin á einhvern ákveðinn stað. Því er valin þessi leið. Sem mun styggja marga – sem munu geta bent á í bræði sinni að hér sé hörfað afturfyrir heilbrigða skynsemi og almannaálit.


„Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.“

Hér liggur krossinn grafinn í stjórnarskránni. Hvað er 21. aldar, upplýst lýðræðisríki að burðast með geistlega stofnun í stjórnarskrá sinni? Af hverju á ríkið að skipta sér af kirkjuskipan? Eða taka þátt í trúrekstri? Aðskilnaður ríkis og trúar er eitt af stóru framfaramálum vestræns lýðveldis. Og hér ætla Íslendingar að klúðra dauðafæri. Hvað á þetta að þýða?

Það sátu róttækir trúleysingjar í stjórnlagaráði. Menn með sterkar skoðanir á því að kirkjan skyldi út með öllu. En þeir áttuðu sig á því að þeir voru ekki bara að skrifa lýsingu á sjálfum sér eða sínum hugsjónum. Þeir voru að lýsa þjóðinni sinni. Og þeir mátu það sem svo að þjóðinni (eða a.m.k. teljandi hluta hennar) þætti barasta ennþá töluvert vænt um kirkjuna sína.

Við erum ófullkomin þjóð. Í 8. grein skrárinnar er kveðið á um að á Íslandi skuli margbreytileikinn virtur. Við virðum hann ekki með því að meina öðrum þess sem við teljum okkur ekki vanhaga um. Þessi stjórnarskrá er langt frá því að vera fullkomin – í raun er hún líka bráðabirgðaplagg alveg eins og amma hennar – en í henni eru stigin mörg mikilvæg skref. Sum meira að segja ári merkileg, metnaðarfull og alls ekki óumdeild. Við skrifin var horft meira til þess hvað menn vildu setja inn í skrána en þess – hverju menn vildi fá að henda út. Það er enda miklu mikilvægara.

Stjórnarskráin nýja var unnin undir pressu – af venjulegu fólki. Hún var ekki unnin af sérfræðingum sem byggðu hana á hátimbruðum lagaarkítektúr. Hún var skrifuð af venjulegu fólki. Fólki sem þjóðin valdi og treysti – til að vera spegill af þjóðinni. Kannski líkar okkur ekki alveg það sem við sjáum. En þegar manni mislíkar spegilmyndin er sísta ráðið það að mölva spegilinn.


Stjórnlagaráðsfulltrúar spurðu sig einnar spurningar áður en þeir lögðu endanlega blessun sína yfir skrána. Er þessi skrá betri en sú sem við höfum?

Mér finnst að við ættum að hafa sömu spurningu í huga þegar við greiðum atkvæði um hana. Og ef við ætlum að koma með grundvallargagnrýni ættum við að beina sjónum að því hvað við teljum vanta – ekki hverju er ofaukið. Því það getur vel verið að lýsinguna á einhverjum vanti í skrána – en það er alveg ljóst að með því að henda fleiri hlutum út þá erum við að stroka út lýsingu á meðbræðrum okkar. Og þá erum við ekki að virða margbreytileika mannlífsins.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er ekki stjórnarskrá, þetta er illa samið manifesto. Þeir sem komu að máli tryggðu að þingið getur ekki samþykkt hana þar sem að hún stenst engan lagalegan skilning í svo mörgum veigamiklum atriðum.

Þetta er í raun reginhneyksli.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Rökstuðningur?

Nafnlaus sagði...

Þú bendir réttilega á marga galla í þessum drögum. Og þótt það séu líka stigin, eins og þú segir, mörg mikilvæg skref í henni tel ég mig samt ekki geta samþykkt hana. Því miður. Til dæmis bara út af kirkjuskipaninni. Ég get bara ekki samvisku minnar vegna samþykkt yfir mig ríkistrú og ég get ekki ímyndað mér að nein rök eigi eftir að koma fram sem gætu sannfært mig um að það sé eðlilegt að ég gerði það. Það væri samt mjög gaman að sjá hvað fólki dytti í hug að segja ("Já, þú ert trúlaus og átt rétt á trúfrelsi án afsláttar af því að það eru mannréttindi en ættir samt að samþykkja yfir þig stjórnarskrá sem leyfir og styður ríkistrú og að ríkið, sem hefur vald yfir þér, hafi sérstaka 'kirkjuskipan' af því að ..."). Þess vegna finnst mér svolítið leiðinlegt að þessi tilraun til að koma gera ýmsar góðar breytingar hafi verið eyðilögð.

G.