23. desember 2010

Lilja Mós

Ástandið í þingflokki VG þessa dagana má túlka á ýmsa vegu. Ýmsir reyna að halda þeirri mynd á lofti að það sé fyrst og fremst vandræðalegt. Þar sé innan borðs fólk sem ekki er þingvanið eða, það sem verra er, félagslega vanþroska. Öðrum sýnist málið benda til þess að þingflokkur VG sé ekki með öllu steyptur í klakabönd flokksaga og að óeirðirnar nú séu endurómur af slætti þeirra fáu lýðelskandi hjarta sem lifað hafa af setuna á þingi.

Ég hef notað jólafríið til að lesa, hugsa, teikna og skapa. Í kvöld var komið að gamla lærimeistara mínum Þorsteini Gylfasyni. Ég veit að ég var honum stundum erfiður nemandi og mér er minnistætt þegar ég og góður vinur tókumst á við Þorstein í litla herberginu hans í Háskólanum um efni sem hann var sérfróður um en við töldum okkur hafa tekið fram úr honum á ákveðnu sviði. Það fauk í Þorstein. Við urðum kappsamari. Loks náðum við sameiginlegum skilningi og aldrei lét hann okkur líða fyrir það að hafa ráðist gegn honum, þvert á móti.

En nú hef ég verið að lesa Tilraun hans um heiminn og í kvöld las ég kaflann um meirihlutaræðið („Á meirihlutinn að ráða“). Þvílík endemis heiðríkja! Þrátt fyrir að kaflinn sé í raun árétting á því að stærðfræðilega sé útilokað að tryggja meirihlutaræði í framkvæmd þá ber hann í sér mjög sóberaða áminningu til þeirra þingmanna sem nú berjast við að bjarga landinu.

Vinkona Þorsteins, Elizabeth Anscombe, hafði gert grein fyrir lýðræðislegum rangala sem lýsa má þannig að vel geti gerst, ef notaðar eru meirihlutakosningar, að minnihluti þátttakenda fái meirihluta sinna mála í gegn. Þorsteinn notar dæmi af kennarafundi þar sem tveir gamlir fauskar eru alveg samstíga í öllum málum en þrír yngri kennarar eru þeim mjög andsnúnir. Þó vill svo til að þremenningarnir styðja hver um sig afstöðu gömlu karlanna í einu máli af þremur. Þetta eina mál, þar sem hver þremenningur á samleið með gömlu fauskunum, verður á endanum eina málið sem viðkomandi nær að koma í gegn.

Þá kemur upp sú staða að þrír af fimm fulltrúum fá aðeins framgengt einu máli af þremur en tveir af fimm fá öll sín mál samþykkt. Með því að átta sig á stöðunni geta þremenningarnir breytt um taktík. Þeir geta bundist samtökum um að kjósa allir eins. Hver um sig lætur þá af stuðningi við það mál sem viðkomandi átti sameiginlegt með þeim gömlu en fær í staðinn stuðning við hin málin tvö.

Flokksræðið er orðið til.

Flokksræði snýst um að hámarka árangur þeirra sem safnast saman í flokk. En flokksræði gengur að sjálfsögðu ekki upp nema hver og einn flokksmaður hafi meiri hag af því að fylgja flokkslínu en að ganga til liðs við „óvininn“.

Peter Geach, eiginmaður Anscombe, benti á að þessi lýðræðisvandi hefði í raun aðeins eitt svar: Menn yrðu að gæta að hagsmunum þeirra sem eru í minnihluta og tryggja réttindi þeirra.

Og við getum spurt, hefur það verið haft í heiðri í núverandi stjórnarsamstarfi?

Þorsteinn tekur einnig fyrir svokölluð „þátttökurök“. Samkvæmt þeim hefur þátttaka í lýðræðislegu starfi gildi í sjálfu sér. Það, að hafa rödd og njóta atkvæðisréttar, er í raun umbun í sjálfu sér þrátt fyrir að atkvæðagreiðslur verði manni almennt mjög mótdrægar.

Þátttökurökin eru auðvitað oft notuð sem ástæða fyrir að mæta á kjörstað og kjósa þrátt fyrir að maður viti að atkvæðið muni engin áhrif hafa. En rökin má líka nota til að benda þingmanni eins og Lilju Mósesdóttur á að þetta sé nú bara fair play. Svona sé lýðræðið. Stundum vinni maður, stundum ekki. Maður haldi áfram og reyni að vinna málum fylgi.

Skoðum dæmi Þorsteins:

Tökum mann sem alltaf er í minnihluta um alla hluti. Honum er sagt að hugga sig við það að hann hafi þó alltaf fengið að greiða atkvæði eins og aðrir. En hvaða huggun er það? Segjum að hann sé háskólakennari og sitji deildarfundi. Hann vill ráða hæfasta umsækjanda í hverja stöðu, en meirihlutinn greiðir alltaf atkvæði með vanhæfum umsækjendum. Hann vill auka kröfur til stúdenta, en meirihlutinn samþykkir að draga úr þeim jafnt og þétt. Hann vill að kenndar séu góðar kennslubækur, en meirihlutinn samþykkir að kenndar séu bækur sem kennararnir í meirihlutanum hafa sjálfir samið. Það eru tíu svona mál á tíu fundum á ári og þau fara næstum alltaf eins. Á þessi maður að hugga sig við það að hann fái þó að minnsta kosti að vera með á fundunum og greiða atkvæði? Hefur seta hans og upprétting handarinnar á fundunum sjálfstætt gildi? Hefur hún gildi sem vegur upp á móti því að öllu sem hann trúir á í starfi sínu er varpað fyrir róða á þessum fundum?


Ég er sammála niðurstöðu Þorsteins:

Mér virðist nær að segja að hún sé einskis virði, og hann eigi að hætta að sækja þessa bölvaða fundi, og jafnvel að hætta störfum í þessum bölvaða háskóla.

Engin ummæli: