4. mars 2008

Fyrirsjáanlegt

Ef eitthvað er fyrirsjáanlegra en það að þjóðin telji Arnald Indriðason besta rithöfund landsins þá eru það viðbrögð þeirra sem telja sig hafa vit á bókum sem spyrja hvort það að vera vinsæll sé það sama og vera góður.

Annars held ég að bókasmekkur eins og annar smekkur í nútímasamfélagi hljóti að ranghverfast. Áður fyrr var t.d. litið á skyndibita sem lítið mengi í hinu stóra mengi matar. Nú eru mengin tvö orðin næstum jafnstór og það eina sem skilur þau að er lítið mengi dundmatar. Við höfum ekki tíma til að ganga kvartmílu inni í Hagkaup í leit að hráefnum þegar hægt er að versla kjúkling, meðlæti og tilbúið kryddmauk og elda máltíðina á sama tíma og það tæki mann að leita uppi hráefnin í kjötsúpu.

Þar er ekki eins og gamli heimilismaturinn hafi síðan verið eitthvað óskaplega merkilegur, hægdrepandi, smjörgláðar sinartæjur og trefjakjötflykki í kólesterólsósu og bragð- og bætiefnalaus, mauksoðin ýsa. Má ég þá frekar biðja um grænmetisburrito með steiktu grænmeti, hrísgrjónum, pintóbaunum, gvakamóle og salsa á Serrano. Að öllu leyti betri, fljótlegri og ódýrari matur (nema síðasta burrito sem ég fékk sem var óvenjulega dvergvaxið).

Það er ekki eins og Halldór Laxness hafi verið mikill hugsuður. Hans hæfileiki fólst í því að klæða hverja herfuna á fætur annarri í fínan sparikjól, teyma hana með sér á ball innan um pöpulinn, látast vera ástfanginn af henni og fá nærstadda til að trúa því að hún væri konungborin.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það eina sem hægt er að setja út á þessa færslu er að Óli Sindri skrifaði hana ekki. Sumsé, það vantar töddsið.
Alltaf þegar maður kemur á þessa síðu, þá langar mann að lesa eitthvað eftir Ó.S. Þið bræðurnir eru ágætir, en þið hafið ekkert í snillinginn. Úff, hvað ég sakna Mengellu.

Nafnlaus sagði...

Skrolla, maður. Skrolla.

Nafnlaus sagði...

Ef ég yrði spurður að því hvern ég teldi besta rithöfund landsins myndi ég segja það sama......... kannski vegna þess að ég er svo grunnur á því og hef nánast engöngu lesið Arnald undanfarin ár. En ég er náttúrulega bara "týpískur" :)

kv,

GS

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég biðst forláts á þessum tilfinnanlega skorti á herslupunkti. Það er ekki von að vér dauðlegir getum keppt við undrabarnið Óla Sindra, sem kenndi sjálfum sér að lesa áður en hann byrjaði í skóla og fékk 9,5 á öllum samræmdu prófunum án atrennu.

Ég bið menn að hafa viljann fyrir verkið. Óli myndi vafalaust skrifa meira ef hann væri ekki að berjast fyrir lífi sínu á landspítalanum eftir að hafa fengið blóðeitrun upp allan handlegginn. En hann kemur væntanlega af fullum krafti um eða upp úr helgi.

Nafnlaus sagði...

Ég verð bara að koma Ragnari eilítið til varnar.

Þetta eru tveir ólíkir höfundar með ólíkum áherslum, en báðir mjög góðir.

Aukinheldur efast ég ekki um, þrátt fyrir nánast ótrúlegar og nánast ofurmannlegar gáfur Óla (hann gæti flutt fjöll með hugarorkunni... ef það væri á annað borð hægt, en kannski að Óli finni lykillin að því, enda svo allsvaðalega gáfaður), að hann hafi nú lært einhver stílbrögð frá bróður sínum.

Ragnar á töluvert magn af ansi áhugaverðum og góðum greinum hér, tek sem dæmi Frelsi og ábyrgð, Offors? og Handrukkarinn sem hvarf.

En, svo maður snýr að efni pistilsins, finnst mér bækur Arnaldar vera æði misjafnar, fannst Napóleonsskjölin, Kleifarvatn, Vetraborgin, Synir duftsins og þó sérstaklega Konungsbók vera ansi slappar sem jaðraði við sorp, en hafði glettilega gaman af Bettý og Röddinni, en Mýrin, Grafarþögn og Dauðarósir eru afspyrnu góðar bækur.

Er eftir að lesa Harðskafa, en ég var svo óhress með óbjóðinn sem er Konungsbók þannig að ég er alls ekki að flýta mér.