17. október 2011

Vinnuvika íslenskra skólabarna

Ein sterkasta minning skólagöngu minnar eru haustin heima á Akureyri þegar maður gekk í skólann á fyrstu frostmorgnunum og hlustaði á brakið undir skónum og andaði að sér ísköldu og fersku haustloftinu.

Það komu tveir svona morgnar um daginn og æstu upp minninguna. Mikið var það gott.

En nú fer dimmi tíminn í hönd. Tíminn sem gerði menntaskólanum kleift að fylla í gatið á milli ljósglufanna. Það er eitthvað svo andstyggilegt við það að vakna í myrkri og fara til vinnu í myrkri. Eða það finnst mér. Einhverjum finnst það vafalaust sjarmerandi.

Snemma í morgun mættu foreldrar krakkanna okkar í unglingadeildinni í Norðlingaskóla. Við sýndum þeim hvað við erum að gera. Ég gat ekki betur séð en almenn ánægja ríkti með það sem við höfum í pípunum. Sjálfum fannst mér langmest gaman að við skyldum geta sagt þeim frá því að frá og með næstu helgi ráða nemendur því sjálfir hvort þeir mæti klukkan átta á morgnanna. Þeir sem vilja það frekar geta sofið aðeins lengur og mætt í skólann klukkan níu. Þeir eru þá bara klukkutíma lengur þann daginn.

Þetta var niðurstaða lýðræðislegst ferils sem m.a. fól í sér að fulltrúar nemenda lögðu sitt af mörkum. Í morgun var lokahaftið sprengt. Foreldrar innvinklaðir. Og svo er bara gó.

Svona finnst mér skólakerfið eigi að virka.

Næsta mál á dagskrá: Harry Potter smiðja. Við þurfum að gjöra svo vel (að kröfu námsnefndar nemenda) að umbreyta skólanum í Hogwarts og taka upp skólabúninga um tíma, flokka nemendur á vistir og taka upp kennslugreinar eins og varnir gegn myrkraöflunum og bruggun galdraseyða.
Það verður eitthvað.

1 ummæli:

Bjössi sagði...

Pant Gera galdraseydid!