13. október 2011

Sakhæfi er lögfræðilegt hugtak ... my ass!

Það er í sjálfu sér auðveldasti hlutur í heimi að skilja að ættingjar Hannesar Þórs vilji að morðingi hans sé dreginn til ábyrgðar fyrir hið hrottalega og kaldrifjaða morð. Og nú þegar þeir hafa misst annan náin ástvin þá finnur maður fyrir djúpri hluttekningu með þeim. Það er vonandi að eitthvað af sárum þeirra nái að gróa á þeim tíma sem framundan er.

Það er samt ekki hægt annað en að hvá þegar maður les dóm Hæstaréttar.

Ég hef lesið ansi marga dóma í morðmálum vegna verkefnis sem ég er með í vinnslu og ég verð að segja að mér finnst hlutverk geðlækna einkar undarlegt oft á tíðum. Sem og hlutverk dómaranna sem oft líta á sjálfa sig sem ekki aðeins lögfróða menn – heldur líka sem einhverskonar þorpsöldunga sem hafi á reiðum höndum hina endanlegu mælistiku á hvað sæmir og hvað ekki. Sem ég held að maður geti fullkomlega öfgalaust fullyrt að sé helber þvæla. Dómarar eru líklega einhverjir verstu mælikvarðar á velsæmi sem til er – enda yfirleitt fólk af einhæfri sort sem starfs síns vegna lifir í litlum loftbólum og hefur yfirleitt meiri reynslu af sumarbústaðaviðhaldi en lífinu. Oft finnst manni eins og dómarar séu lítið annað en seigfljótandi samfélagseðja, jafnstútfull af fordómum og þrugli og aðrar „heldrimannastéttir.“ Það til dæmis dytti fáum í hug í alvöru að það sé einhver sérstök ósvinna að rifja upp tuttugu ára gamlan dóm um hrottaleg ofbeldisverk í deilumáli þar sem fólk er sakað um að beita ofbeldi og kúgun af litlum sökum í nágrannaerjum.


Íslenskum dómurum er alveg sérstaklega í nöp við fjölmiðla. Skilja þá ekki. Og standa markvisst í vegi fyrir því að á Íslandi fái þrifist fjölmiðlun sem hefur eitthvað bit.

Alveg eins og íslenskum dómurum hefur alltaf verið illa við minnipokafólk og dæmt það miklu harðar og oftar en mektarmenn. Hanga svo á formsatriðum þegar öllum verður ljóst að þeir hafa framið dómsmorð – hafi blindast af fyrirlitlegri mannfyrirlitningu og rembu.

Og í dag ákvað Hæstiréttur að nýta sér þann „rétt“ sinn að hunsa greiningar sérfræðinga og dæma mann til harðrar fangavistar sem kunnugir segja að sé veikur. Og samfélaginu og honum séu aðeins gert illt eitt með því að henda honum í fangelsi.

Eini málefnalegi rökstuðningur Hæstaréttar felst í niðurlagi skýrslu geðlæknis á Sogni sem segir m.a. að ekki hafi tekist að „fá fram“ ranghugmyndir eða ofskynjanir hjá Gunnari, hann hafi „bjarta framtíðarspá“ og sé búinn að jafna sig á Hildi. Hann eigi góða að og hafi fyrir morðið verið í þokkalega góðri félagslegri og atvinnulegri stöðu.“


Kommon.

Fyrir utan þann undarlega þankagang að látið sé eins og markvisst hafi verið reynt að eyðileggja geðheilsu Gunnars á Sogni með því að „fá fram“ ranghugmyndir eða geðrof þá verður að segjast eins og er að þessi blessaði sérfræðingur er alveg einstaklega ósannfærandi. Að halda því fram að Gunnar hafi verið í „þokkalegri“ félagslegri og atvinnulegri stöðu fyrir morðið og sé nú þegar búinn að jafna sig á Hildi – er eitthvað sem virkar verulega veiklað.

Gunnar vann vissulega sem tölvutröll fyrir morðið. En hann sagðist sjálfur fyrir morðið vera nær algjörlega einangraður í vinnunni, m.a. í átakanlegu myndbandi á Youtube þar sem hann reyndi ítrekað að eignast vini á sérlega klaufalegan og félagslega einfeldningslegan hátt.

Og Gunnar sagði sjálfur í frægu myndbandi að Hildur gæti vel hryggbrotið hann, hann hefði breitt bak. Og í öðru myndbandi lét hann eins og hryggbrot Hildar væri ekkert stórmál og hann væri farinn að hugsa um annað.

Allan þennan tíma kraumaði innra með honum þráhyggja sem hann faldi vel og dyggilega en dundaði sér við að safna morðtólum í skottið á bílnum sínum.

Ef framtíðarbatahorfur Gunnars eru „góðar“ með tilvísun til þeirrar „þokkalegu“ stöðu sem hann var búinn að koma sér í mánuðina og misserin fyrir morðið – þá er eitthvað mikið bjagað við þær framtíðarhorfur. Því að tíminn sem geðlæknirinn vísar í var tími undirferlis og stigvaxandi drápshugar undir yfirborði meinleysis og gæsku. Hefði Gunnar verið tekinn í tékk mánuði eða hálfu ári fyrir morðið er allteins víst að ekki hefði „tekist“ að fá fram sturlun eða merki um þráhyggjukennda ást. Það hefði að sjálfsögðu ekki þýtt að slíkt væri ekki til staðar.

Dómurinn vísar ennfremur til þess að Gunnar hafi á einhvern „þokukenndan“ hátt vitað að hann væri að gera rangt.

Erum við á steinöld? Trúum við því virkilega enn að sakhæfi ráðist af einhverjum einföldum, biblíulegum skilningi á hugtökunum „rétt“ og „rangt“? Trúum við því að sá maður einn geti verið geðveikur sem fremur glæpi í algleymismóki?

Það skuggalegasta við dóm Hæstaréttar nú er að dómurinn færir fram eftirfarandi röksemdafærslu:

Það er eðlilegt að túlka sakhæfi mjög þröngt vegna þess að refsins á meðal annars að fullnægja réttlætistilfinningu almennings.


Það skiptir á endanum ekki máli að þeir sérfræðingar sem rannsökuðu hann séu sammála um að hann smellpassi við kröfuna um ósakhæfi, því öldungis ófagleg dómgreind dómaranna blæs þeim í brjóst þeim sannindum að Gunnar hafi verið of skipulagður auk þess sem dómararnir telja stemmara fyrir því í þjóðfélaginu að kasta Gunnari í steininn.

Það er verið að friðþægja okkur.

Svona eins og nokkrum óknyttakrökkum var fórnað fyrir öryggiskennd þjóðarinnar eftir að Geirfinnur hvarf.

Skyldi hafa eitthvað með næma tilfinningu Hæstaréttar fyrir „réttlætiskennd“ almennings að gera að hér dó maður sem átti volduga að? Maður sem á iðnjöfur að föður. Á meðan Gunnar á ekki annan föður en þann sem sálgaði sér fyrir framan fjölskylduna þegar Gunnar var barn?

Hversu margir hafa ekki beðið dómara þessa lands að skilja örvæntingu sína, reiði, ótta. Hve margar konur hafa ekki þurft að sætta sig við að nauðgarar hafa smogið lítt laskaðir gegnum linar greipar dómenda? Hve mörgum barnaníðingum hefur verið sleppt með væga eða enga dóma vegna þess að daufar taugar dómaranna nema ekki réttlætiskennd barnanna og þess venjulega, en ekkert sérstaklega æruverðuga fólks, sem blöskra vægir dómar.

Hvaða djöfulsins rugl er það að sakhæfi skuli þrengjast vegna þess að markmið refsinga sé að fullnægja blóðþorsta almennings?

Sjá mennirnir ekki hve brengluð þessi rök eru?

Sjá mennirnir ekki rökvilluna sem stendur gapandi á miðju gólfi og veifar öllum öngum?

Það getur ekki staðist að þrengja megi skilninginn á sakhæfi með þeim rökum að refsingar eigi að fullnægja almenningsálitinu. Því sakhæfi snýst um það hvort refsing eigi við til að byrja með! Allar hugmyndir um fínni blæbrigði refsinga eiga að sitja hjá þar til búið er að ákvarða yfirleitt hvort refsing sé eðlilegt úrræði í tilteknu máli.

Allir sérfræðingarnir sem báru vitni sögðu það sama: Gunnar er ekki sakhæfur. Hann er svo skaddaður að glæpurinn framdi sig svotil sjálfur. Hann þarf hjálp til að vera ekki hættulegur. Og getur verið hættulegur áfram.

Hæstiréttur kaus samt að hlusta á þann sem sagði: Gunnar spjarar sig. Með hjálp fjölskyldunnar gæti hann jafnvel komist aftur á þann stað í lífinu sem hann var á misserin fyrir morðin.

Er eitthvað sem þarf að óttast meira?

3 ummæli:

Elías Halldór sagði...

Fólk með persónuleikabresti er venjulega talið sakhæft á Íslandi. Fólk eins og Rúnar Bjarki Ríkharðsson, svo maður nefni dæmi.

Nafnlaus sagði...

Til eru persónuleikaraskanir sem ekki falla undir geðveiki. Ein sú alvarlegasta felur í sér að viðkomandi veit nákvæmlega hvað hann er að gera og veit alveg muninn á réttu og röngu - honum er hins vegar alveg sama því hann skortir samvisku. Ég er ekki að halda því fram að þessi persónuleikaröskun hrjái Gunnar enda er ég ekki geðlæknir. En óneitanlega minnir vitnisburður yfirlæknisins á Sogni dálítið á lýsingar á persónuleikaröskun í þessum dúr. Svoleiðis meðfædd persónuleikaröskun verður ekki læknuð með neinum þekktum ráðum í dag.

Yfirleitt eru menn taldir sakhæfir geri þeir sér fulla grein fyrir því hvað þeir eru að gera meðan afbrotið er framið. Þetta gildir í flestum vestrænum ríkjum, að hluta mætti telja Bretland undantekningu þar sem "moral insanity" telst enn ávísun á ósakhæfi en Bretar hafa hins vegar brugðist við með því að safna saman sérlega hættulegum föngum, þ.m.t. þeim sem teljast ósakhæfir á grunni moral insanity í sérstakan flokk og geyma þá í hámarksöryggisvistun og reyna að beita geðlæknisúrræðum. Skv. skýrslum og úttektum er þetta rándýrt dæmi og árangurinn af læknistilraunum sorglega lítill.

Af því sem ég hef lesið um málið held ég að öruggara hefði verið að geyma Gunnar á Sogni því ýmislegt bendir til að hann geti verið stórhættulegur samföngum sínum. Og hámarksöryggsvistun í fangelsi á Íslandi liggur ekki á lausu.

Toggi sagði...

Anonymous: Sogn er engin hámarksöryggisvistun, Gunnar væri alveg jafn hættulegur vistmönnum þar eins og föngum á Litla Hrauni. Sogn er í raun bara lokuð geðdeild, ekki rammgirt fangelsi þar sem allir hýrast inní plexíglerbúrum.