25. september 2011

Þetta vildi ég láta ræða í kynjafræði


Ég hef haldið áfram að kafa ofan í femínismann með hjálp góðra sem hafa nennt að rökræða þetta við mig eða bent mér á lesefni.

Ég hef orðið var við að þessi gagnrýni mín á það sem ég kýs að kalla jafnaðarfemínisma hefur verið túlkuð sem afstaða í einhverjum skærum milli femínista og óvina þeirra. Deilur sem ég er ofsalega lítið inni í. Og hef sáralítinn áhuga á. Mig langar því að taka það fram að ég er ekki á móti femínisma. Femínismi, meira að segja sú sort sem ég held að hafi til að bera allt sem þarf fyrir skaðlega hugmyndafræði, er hvorki áberandi mikið verri eða betri en mörg afstaðan sem tíðkast útumallt.

Það er mín skoðun að fólk eigi að hafa málfrelsi – en þessu málfrelsi fylgi sá réttur (eða jafnvel sú skylda) að við hlustum hvert á annað og mátum okkar hugmyndir um veruleikann við hugmyndir annarra. Með  því móti getum við numið hvert af öðru. Þegar við rekumst á eitthvað sem við getum ekki samþykkt eigum við að andæfa því, takast á við það. Ef nógu margir myndu ástunda það væri hægt að snúa þessu samfélagi inn á þá braut að rök og samræða gæti farið að hafa raunveruleg áhrif. Við þurfum fátt meira.

Ég er ekki í neinu liði gegn femínistum. Sumir þeirra eru örugglega nær mér í skoðunum og lífssýn en sumir andstæðingar þeirra. En ég er heldur ekki í liði með þeim. Og það, að ég skuli takast á við femínista um femínisma gerir mig ekki að fulltrúa kúgandi feðraveldis. Það er ekki vegna þess að ég er með typpi og flestir femínistar ekki – sem ég tekst á um þessar skoðanir. Ég er ekki að reyna að sölsa neinn undir vald mitt. Þessar rökræður eru ekki hliðstæða nauðgunar eða heimilisofbeldis.



Hugmyndafræðilegt skjól


Þegar maður hugsar til þess að það eru aðeins áratugir síðan konur fæddust inn í stórkostlega hamlandi samfélagshlutverk þá er ekkert skrítið að manni þyki grunnt á því góða í jafnréttismálum. Sá málstaður að „frelsa“ konur undan helsi verður mjög öflugur og augljós þegar samfélagsvitund er einhver. Og það  er í sjálfu sér ekki skrítið að femínistar tali um andlega vakningu eða „frelsun“ sem verði við það að vera lyft yfir samfélagið þar sem maður hefur tækifæri til að skoða það utanfrá. Slík vakning er ekkert nema góð og gild – en hún á það til að hrinda manni úr einni falsmynd um heiminn yfir í aðra. Menn verða svo uppnumdir af því að sjá í gegnum það sem þeir voru búnir að venjast að þeir beita ekki gagnrýnni hugsun á hina nýju heimsmynd, upplifa hana sem endanlega lausn frá hugsanavillum og blekkingum. Og beita sjálfa sig ekki andlegu aðhaldi.


Næstum hver einasta mannréttindahreyfing er plöguð af ógæfu sem þrífst í skjóli þess að fólk verður hálfheilagt í baráttu sinni og málstaðurinn hylur þá fyrir gagnrýni. Fólk skirrist við að  berjast gegn jafnvel augljósri illsku vegna þess að það bitnar á göfugum málstað. Sá sem gagnrýnir mannréttindafrömuð virkar á yfirborðinu eins og hann sé að slást í lið með mannréttindabrjótunum. Í þessu skjóli þrífast ósiðir. Allt frá smávægilegum subbuskap upp í hroðalega glæpi. Marteinn Lúther King var bölvaður drulludólgur og hræsnari, sem fékk kikk út úr því að beita hvítar vændiskonur valdi. Winnie Mandela var morðhundur, þjófur og glæpamaður. Hún lét grípa sig við að hvetja fólk til að nota eldspýtur og „hálsmen“ til að frelsa þjóð sína. Og í eitt skipti þurfti hún að koma höggi á prest og lét ræna, pynta og myrða fjórtán ára dreng sem átti athvarf hjá prestinum. Hún hafði ætlað að fá hann til að ásaka prestinn um kynferðisofbeldi.


Það virðist ekki vera nóg að málstaður feli í sér lausn frá ofbeldi og kúgun. Ef hugmyndafræði er áfátt um nokkur grundvallaratriði þá fyrr eða seinna er hætt á að það sem verið er að berjast spretti upp innan búðar.

Eini vísir þess að hægt sé að brjóta upp þessa hefð er ef menn eru meðvitaðir um hættuna og vinna markvisst gegn henni með því að gera þá persónulegu kröfu á alla meðlimi hópsins að veita þessum löstum viðnám þegar þeir skjóta upp kollinum. Ghandi sigraði Breta með því að bera ekki hönd fyrir höfuð sér, kristnir sigruðu Róm með því að láta ljón éta sig. Ghandi átti í hatrammri baráttu innan síns eigin flokks því ofbeldið spratt upp úr öllum glufum. Á endanum skall það á honum og Indlandi sem holskefla og hann drukknaði – en árangur hans situr enn eftir. Kristnir sigruðu Róm og síðan hálfan heiminn og um leið og þeir upplifðu sig sem ráðandi afl lengdu þeir og brýndu stilk krossa sinna og breyttu í sverð.


Ég held maður geti fullyrt að hver sú hugmyndafræði sem hyggst berjast gegn kúgun og ofbeldi, sem ekki leggur blátt bann við kúgun og ofbeldi sem leið að því marki, er dæmd til að taka aðeins við löstum hinnar ríkjandi hugmyndafræði – eða hneppa sig fastar í fjötra, ef baráttan mistekst.

Vandinn við femínisma að þessu leyti sprettur af því að hin öfluga vakning um ranglætið, sem margir femínistar upplifa, felur ekki í sér nema óljósar leiðir að réttlætinu. Að þessu leyti er hann eins og trúin að Guð. Andaktug tilfinning fyrir markmiði en fátt praktíst við útfærsluna. Femínisminn fellur því í sömu gryfju og Guð, sem fyrst lét nægja einföld munnleg fyrirmæli. Þegar það dugði ekki lét hann höggva tíu reglur í stein. Það dugði ekki heldur og á endanum sátu guðstrúaðir uppi með tæplega 800þúsund orða bók, fulla af misvísandi tilmælum, ruglingi og endalausum lastafingraförum þeirra sem bókina skrifuðu.

Það er löngu búið að skrifa meira en 800 þúsund orð til leiðsagnar sannfærðum femínistum. En vegna þess hve ranglætið er almennt og réttlætið er óskýrt þá er svipuð staða uppi í femínisma og kristni. Nokkuð útbreidd tilfinning fyrir sjálfsmikilvægi eða -virði, sumir upplifa sig frelsaða, einhverjir eru herskáir – en síðan hafa menn einfaldlega dregið sinn femíníska uxa og beitt honum fyrir vagn hverrar þeirrar hugmyndafræði sem hefur höfðað til þeirra auk femínismans.


Sem í sjálfu sér er sjálfsagt og eðlilegt. En þegar menn hafa beitt femínisma fyrir tvo vagna sem vilja fara í sitthvora áttina þá geta trauðla báðir rökstutt stefnuna með því að vísa í femínisma.

Það er kölluð óbein sönnun þegar einhverju sem óvissa er um er hleypt inn í röklegt kerfi. Síðan bíða menn eftir því að kerfið hrynji. Það hrynur ef mótsögn myndast innan þess. Þá telja menn sig hafa sannað að það sem þeir bættu inn til að byrja með hafi verið ónýtt.

Á svipaðan hátt má færa rök fyrir því að ef femínismi er látinn vaxa innan kerfis og það endar með því að femínistar lendi í hatrammri deilu og hafi gersamlega ólíkar skoðanir sem stangast á, þá hafi verið sannað að femínisminn hafi verið gallaður til að byrja með.

En slík rök eru ógild. Til þess að mótsagnir sanni að það sem bætt var í kerfið sé ógilt þarf heilbrigði kerfisins að vera hafið yfir vafa. Ógilt kerfi getur leitt af sér mótsagnarkennda niðurstöðu á sama hátt og ógild breyta í gildu kerfi. Það að femínistar lendi í því að deila innbyrðis þarf þessvegna ekki að fela í sér að femínisminn sé gallaður, það getur sprottið af því að það séu gallar í kerfinu sjálfu.

Það er ástæðulaust að ætlast til að femínismi sé fullkomnari en hver önnur hugmyndafræði. Það að sumir femínistar skuli berjast fyrir vændi og nekt en aðrir gegn vændi og nekt sannar líklega ekkert annað en það að femínismi hefur aðlögunarhæfni. Að hann mótast af straumum sem þegar eru til staðar í samfélaginu. Og mótar þá um leið samfélagið að einhverju leyti.

Staðgöngumæðrun




Guð er til -> ekki borða svínakjöt.

Konur hafa verið fangar félagslegra fjötra -> kona ætti ekki að ganga með barn fyrir óbyrju.

Hvorugt seinna atriðið hér að ofan leiðir af forsendunni. Til þess þarf fleira að koma til. Utanaðkomandi. Það er engin leið að nota einföld munnleg fyrirmæli um ávaxtatré eða tvær steintöflur til að banna fólki að borða svínakjöt. Það er heldur ekki hægt að nota kúgun kvenna og feðraveldi til að réttlæta það að konum sé bannað að ganga með börn fyrir aðrar konur sem ekki geta átt börn.

Það geta verið margvislegar ástæður þess að menn borða ekki svínakjöt. Það bragðast líkt og mannakjöt. Það drap Mozart... Hver sem ástæðan er, þá er engin sérstök ástæða til að ætla að Guð hafi ætlað að prófa hlýðni manna með því að skapa forboðin, gómsæt klaufdýr og láta svo skella á hungursneyðir af og til og sjá hvort menn myndu standast freistinguna. Eins geta verið margvíslegar ástæður fyrir því að menn eru á móti því að konur gangi með annarra börn.

Vandinn er þegar tilvist Guðs er notuð til að banna svínakjötsát og kúgun kvenna til að banna staðgöngumæðrun. Það er enginn röklegur þráður þarna á milli. Hreint ekki og alls ekki. Ef svo væri gæti maður rakið hann til baka. En svo er ekki. Ef maður les rökstuðning femínista fyrir því að staðgöngumæðrun eigi ekki að eiga sér stað þá er hann tvíþættur. Í fyrri hlutanum er skrattinn málaður á vegginn. Bent á að hægt sé að nýta sér fátækt og eymd til að láta undirokaðar konur ganga með börn fyrir ríkar konur – og jafnvel þótt til væru konur sem vildu ganga með börn af einskærri manngæsku og hjálpsemi þá væri engin pottþétt leið til að greina á milli. Þetta eru sumpart góð og gild rök. En þau hafa sem slík ekkert með kynferðu að gera. Ekki frekar en svínakjöt hafi nokkuð að gera með Guð. Og þessi rök eiga allteins við um líffæragjafir, jafnvel blóðgjöf – og í útþynntri útgáfu má heimfæra rökin upp á almenna launavinnu.


Hin rökin sem femínistafélag Íslands beitti gegn staðgöngumæðrun eru heimspekilegri. Samkvæmt því er rangt að „smætta“ konur niður í æxlunarfæri sín.

Nú erum við komin út á verulega hálan ís. Það er ofboðslega erfitt að fóta sig innan um röksemdir af þessu tæi. Það má túlka þetta eins vítt og þröngt og maður kýs eða hefur löngun til. Ef maður ætlar að vera talíbani og ganga alla leið þá er alveg jafn rangt að smætta einhvern niður í nýra, sem hann eða hún kýs að gefa veikum ættingja. Eða beinmerg. Eða blóð. Titrarar og dildóar ættu ekki að vera til, enda smættun á æxlunarfærum karla. Fóstureyðingar ættu ekki að vera til enda skiptir varla öllu hvort barnið er tekið úr konunni í heilu lagi eða pörtum ef rangt er að veita æxlunarfærunum svona mikla athygli eða nota þau í einhverjum praktískum tilgangi, sem staðgöngumæðrun og fóstureyðingar eru hvorttveggja dæmi um. Baráttumerki femínista er krepptur hnefi. Þar er verið að smætta konur í hendur. Það mætti halda lengi áfram vegna þess að hugmyndin um að það sé rangt að smætta fólk í líkamshluta er hvorki rökrétt né skýr.


Womanpower logo.svg

Vændi

Femínismi getur ekki ráðið afstöðu manns til vændis. Sú grunnbarátta margra femínista að konur skuli sjálfar ráða yfir líkama sínum (og m.a. er notuð til að réttlæta fóstureyðingar) rekst þar harkalega á þá hugmynd að sum ráðstöfun líkamans sé óverjandi, og þá með þessum tveim rökum: að um sé að ræða misnotkun á vansælum eða óleyfilega smættun.

Smættunarrökin eru óskiljanleg og ættu jafn vel við dansara og vændiskonu en misnotkunarrökin hafa ekkert með kynferði að gera. Eru í raun aðeins eins og málstaður marxísks kvenfélags af gömlu tegundinni, þeirri sem skiptir sér fyrst og fremst af málefnum kvennanna en ekki samfélaginu í heild.

Og ef femínistum sem eru á móti vændi (eða klámi) er bent á að til séu konur sem vilji af fúsum og frjálsum vilja stunda vændi þá er skrattinn málaður á vegginn. Það er engin leið til að greina á milli misnotkunar og frjáls vals.

Að greina á milli

Ef það að hlutir væru óskýrir og illgreinanlegir væru í alvöru rök gegn því að umbera hlutinn eða leyfa hann myndi femínisminn leggja sjálfan sig niður. Svona flækjurök eru gjarnan notuð gegn einhverju sem maður hefur engin frekari rök gegn. Sleppum þessu bara, þetta er of flókið. En það eru engin rök. 

Það er erfitt að greina á milli þess að manneskja stundi vændi af fúsum og frjálsum vilja og að hún sé neydd til þess. Kannski segir hún eitt en hugsar annað. Og jafnvel þótt hún sé sjálfviljug í vændi þá getur verið að bágborin félagsleg aðstaða hrindi henni í starfið. Vændiskona getur þénað meira á dag en ómenntuð kona í veikri félagslegri stöðu getur þénað á mánuði. Hún sé því ekki sjálfviljug, heldur tilneydd. Þess vegna skuli ekki umbera vændi, það nýti sér bága félagslega stöðu kvenna og ungra karla.

Þessi rök eru líka hætt að snúast um kyn. Og farin að snúast um misnotkun og arðrán. Það er ekkert sérstaklega femínískt við þau sem slík. En ef þessum rökum er fylgt áfram fara þau að skera á þræði sem enginn vill skera á.

Hversu margir ætli vinni á elliheimilum og sambýlum vegna þess að betur launuð störf eru ekki í boði? Og hversu mannskemmandi ætli láglaunastarf á elliheimili sé ef út í það er farið?

Þar vinnur örugglega fólk sem er tilneytt og hefur sáralítinn áhuga á því. Kjörin eru ömurleg og starfsaðstæður slæmar. Afleiðingin er sú að aldrað fólk á Íslandi býr við ömurlegan kost, er sinnt af áhugalausu fólki með vélrænan áhuga á því, sem fær svo illa launað að það á enga möguleika á að mennta sig eða gera annað til að bæta líf sitt. Auðvitað vinnur eitthvað fólk á elliheimilum af einskærum áhuga og fúsum og frjálsum vilja. En hvernig á maður að greina á milli?

Er rétt að banna elliheimili?

Nei, enginn myndi segja það. Menn myndu greina á milli þess félagslega raunveruleika sem birtist í starfi elliheimila og elliheimilanna sjálfra. Og halda því fram að elliheimili þurfi ekki að vera svona. Það sé hægt að bæta þau.

Auðvitað mætti segja það nákvæmlega sama um vændi. Félagslegur veruleiki er ekki það sama og vændið sjálft. Vændi þarf ekki að fylgja skítugum kompum, slysum og dauðsföllum. Jafnvel í sóðalegri mynd er veruleiki vændisins ekkert verri en t.d. fyrstu tilraunir til að hjálpa konum með ólöglegum fóstureyðingum, þar sem veruleikinn var smættaður í sköp og herðatré við subbulegar aðstæður með slysatíðni og jafnvel dauðsföllum. Í báðum aðstæðum voru hlutir reknir upp í leggöng konunnar vegna þess að hún bjó við neyð. Þótt annar aðilinn hafi gert það í eigingjörnum tilgangi en hinn ekki var félagslegi veruleikinn svipaður. 

Hvað snýst femínismi um?

Femínismi er tvennt. Hann er afstaða og rannsóknaraðferð. Rannsóknaraðferðin snýst um að skoða félagslegan raunveruleika út frá kynjum. Svona eins og líffræðingur skoðar lífríkið út frá rottum eða leðurblökum. Fræðimaðurinn femínisti er þá eins og rottufræðingur eða leðurblökufræðingur. Niðurstöður hans einskorðast ekki við tegundina sem hann skoðar heldur gefa vísbendingar um lífríkið almennt og tengsl annarra tegunda við kjörtegundina. Ef vel tekst til skilar rannsóknaraðferðin af sér víðtækari rannsóknum.


Það er augljóst að rannsóknaraðferðin femínismi er óumdeilanlega réttmæt. Svona eru vísindi framkvæmd. En hún getur verið vandmeðfarin og vafasöm. Þannig getur ofuráhersla á kyn blekkt mann um undirliggjandi þætti sem skipta meira máli.

Svipað má sjá í fötlunarfræðum. Á Íslandi er notað „öryrkjahugtak“ sem í sjálfu sér er handónýtt, óupplýsandi og vanhugsað. Sjálf beiting hugtaksins stendur samfélaginu fyrir þrifum og hefur kjánaleg áhrif á allar aðgerðir sem byggja á því. Hugtakið er of þröngt, einhliða og yfirlætisfullt. Með því að hafa innbyggt í kerfið að sífellt er horft á þá þætti í fari fólks þar sem vantar upp á eða menn standast ekki samanburð þá missa menn af fjölmörgum tækifærum til persónulegs frelsis og vaxtar. Ég held femínísk fræði þjáist af sama vanda. Of mikil áhersla er á konur sem fórnarlömb og eftirbáta. 

Femínismi sem afstaða er miklu óljósara og verrhöndlanlegt fyrirbæri. Það er eiginlega ómögulegt að skilgreina það. Einhverjir femínistar hafa sjálfir skilgreint það þannig að sá sé femínisti í þessum skilningi sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og er tilbúinn að gera eitthvað í því. Gera eitthvað í því. Sem sagt: femínismi sem afstaða er að gera eitthvað til að jafna stöðu kynjanna.

Í raun, og áberandi svo í íslenskum veruleika, er femínismi sem afstaða sambræðingur nokkurra þátta.

Marxísk barátta gegn kapítalisma, 
hagsmunabarátta gegn ofbeldismönnum og nauðgurum, 
kvenhagsmunagæsla og -hópefling. 

Það má vera að ég sé að gleyma einhverju.

Hver einasti þáttur þessarar upptalningar er vafa undirorpinn. Marxíska baráttan hefur auðvitað ekkert með kyn að gera og er þessvegna ekki femínísk í eðli sínu frekar en beinþykktarmæling eða krabbameinsrannsóknir (sem hvorttveggja getur haft aðrar áherslur eftir því hvort kynið er um að ræða en er miklu víðtækari en að það sé greinandi þáttur). Hagsmunabarátta gegn ofbeldismönnum og nauðgunum er auðvitað nauðsynleg en á það til að verða „hugmyndafræðilegt skjól,“ eins og ég talaði um að ofan, fyrir ólýðræðislegar og ómanneskjulegar afstöður og aðferðir. Kvenhagsmunagæsla og hópefling er í sjálfu sér alltílæi. Trufla mig ekki neitt. Svo lengi sem menn geta stillt sig um að verða andfélagslegt hatursafl. Það eru stríðsæsingarmenn í hópi femínista og hatursmangarar eins og allstaðar þar sem hópar fólks koma saman. Það má vel vera að tekist hafi að einhverju leyti að losa vistarböndin sem karlar höfðu á eiginkonum sínum en á stundum finnst manni eins og kostnaðurinn hafi verið að sumar konur giftst þess í stað kyni sínu (eins og kristnir eru brúðir Jesú) og það hjónaband er ekki alltaf mikið skárra.

Kapp án forsjár

Mín skoðun er sú að flautuleikarinn frá Hameln sé ágæt dæmisaga um vitundarvakningar. Maðurinn sem gat dáleitt burt allar rotturnar í borginni með flautuleik en varð viðskotaillur við svik og rændi börnunum með sama hætti. Maður skyldi vara sig á þeim sem hjálpa manni.

Þegar manneskja verður fyrir vitrun, opinberun eða „frelsun“ hefur hún tilhneigingu til að svífa fyrst í stað í lausu lofti þess ómegnuð að taka nokkra afstöðu. Næsta skref er að gefa sig á vald þeim sem veitti henni vitrunina í þeirri trú að fyrst viðkomandi gat flett ofan af villunni þá hljóti hann líka að geyma svör um sannleikann. 

Oftar en ekki er það verulega misráðið skref. 

Og sá sem raunverulega ber hag þess sem hann „frelsar“ fyrir brjósti og ber virðingu fyrir honum og vill ekki „smætta“ hann í fótgönguliða í hagsmunaher, myndi aldrei nota sér þetta tækifæri sem þarna gefst til að móta viljalítinn einstakling eftir eigin höfði. Sama hversu trúaður maður annars er á fínni drætti eigin hugmynda. 

Ég er ekki að lýsa einhverju loftkenndu fyrirbæri sem fæstir upplifa nema þeir sem falla eins og í flogakasti fyrir fætur predikara í einhverri kirkju. Þetta er alvanalegt fyrirbæri í mannlegu samfélagi og t.d. mjög algengt í kennslu. Ég veit ekki hversu oft ég hef framkallað þetta ástand sjálfur hjá nemendum mínum. Þar sem barnið sér skyndilega að það hefur hingað til haldið eitthvað sem ekkert vit er í. Ferillinn er yfirleitt svona: 

Kennarinn er varfærinn – nemandinn fullyrðingaglaður
Kennarinn er ýtinn – nemandinn lendir í vanda með fullyrðingar sínar
Kennarinn snýr vörn í sókn – nemandinn reynir að verjast
Kennarinn dregur rökræðuna saman – nemandinn er þögull
Kennarinn stoppar – nemandinn er mjög móttækilegur

Það er algjört grundvallaratriði að kennarinn nýti sér ekki þennan móttækileik nemandans til að planta sínum eigin skoðunum í koll nemandans. Heldur láti sér nægja að reyna að fá nemandann til að beita svona gagnrýni á hvað það sem hann setur í stað þess sem nú hefur molnað.


Ég fékk fallega orðsendingu fyrir nokkrum dögum frá nemanda sem vakti með mér trú á að ég hafi gert þetta rétt. Við rákumst saman á feisbúkksíðu sameiginlegs vinar. Ég reyndi að muna hvað ég kenndi honum. Ég vissi að ég hafði kennt honum landafræði. En hann mundi betur:

„Það er ekki rétt hjá Ragga að hann hafi kennt mér landafræði, hann kenndi mér miklu meira. Hann kenndi mér líka trúarbragðafræði. Hann kynnti mig fyrir Lao Tse, kenndi mér að spyrja spurninga, rýna í svör og að efast. Hann kenndi mér umburðarlyndi. Góður kennari þarf að geta opnað augu nemenda sinna og vakið áhuga þeirra á efninu. Þeir eru fáir kennararnir á minni skólagöngu sem ekki hafa bara þulið texta upp úr bók og skrifað á töfluna það sem kennaraútgáfan sagði þeim að skrifa á töfluna. Raggi er einn af fáum (og sá eini af grunnskóla)kennurum mínum sem hefur opnað augu mín fyrir einhverju.“

Þessi drengur dregur viðhorf mín til allrar kennslu betur saman en ég hef nokkru sinni gert sjálfur. Því fer fjarri að ég sé eini áhrifavaldurinn í lífi hans eða beri stóra ábyrgð á því sem síðar úr honum varð. En hann tók sig upp og flutti úr litlum bæ, menntaði sig, gaf sig listum á vald og snéri svo heim og bætti við menningar- og viðskiptaflóruna í heimabænum. Hefur farið sínar eigin leiðir. En hafi ég gert eitthvað þá var það að reyna að hvetja hann til að gagnrýninnar afstöðu en jafnframt að vera opinn fyrir að nema af öðrum.

Það þarf ekki að taka fram að við áttum aldrei samtal þar sem ég útmálaða fyrir honum að þetta væri það sem ég væri að reyna að gera. Ég var tvítugur og vissi það ekki sjálfur. Ég gerði bara það sem ég hef alltaf gert – ég spurði spurninga og reyndi að hefja okkur (mig og nemendurna) upp yfir það einhæfa samhengi sem við vorum öll alltof vön. Ef nemandi sagði „hvað þá?“ datt mér ekki í hug að planta öðrum sannindum í kollinn á honum í stað hinna sem lágu fyrir framan okkur í hrúgu.

Þegar femínisti verður til og upplifir opinberun verður um leið tiltækt heilmikið eldsneyti innra með honum sem getur knúið hann á nýjar slóðir. En hann verður um leið óvenju móttækilegur og viðkvæmur fyrir áróðri. Eins og andarungi sem glatað hefur mömmu sinni eltir hann það fyrsta sem hreyfist. Ef honum er sagt í framhaldinu að staðgöngumæðrun sé slæm vegna þess að þar sé verið að hlutgera konur og smætta í æxlunarfæri er hann stundum ekki í neinni aðstöðu til að taka afstöðu. Og þegar hann hefur komist til jarðar aftur og er með hundrað svona undarlegar hugmyndir í kollinum þá er ekkert víst að hann megni að grafa sig í gegnum hauginn og sjá til lands.

Enda er líf femínistans fullt af furðum. Misvísandi skilaboðum. Samviskubiti og stolti á víxl. Femínistinn vill fagna kvenleika sínum og sýna vöxtinn (ef hann hefur hann) og fegurðina en um leið fær hann samviskubit yfir að hlutgera sjálfan sig. Vill að kona ráði líkama sínum – en vill ekki vændi.

Aðal uppstretta þessa er að femínisminn er ólgandi iða misvísandi áherslna og skoðana. Eins og fjallgarður þar sem þúsund tindar standa upp í loftið með hvíta kolla. Hvítu kollarnir eru femínisminn sem hefur snjóað niður á tindana. Og femínstinn er fjallgöngumaður sem veit ekki hvað hann á að klífa því þótt hann sé sólginn í snjóinn er snjór á fjölmörgum fjöllum sem hann hefur andstyggð á.

The Dolomites Alps Italy




Lausnin

Á endanum verður femínistinn að átta sig á því að það er ekki nóg að vera femínsti. Maður þarf að taka afstöðu til allra hliðarhugmyndafræðanna sem hafa undið sig utan um femíníska þræði. Það, að eitthvað sé málsstaður femínista, gerir það ekki femínískt – heldur aðeins að hugmyndafræði í höndum femínista.

Femínistar þurfa að takast á innbyrðis – en hika við það vegna þess að það gæti orðið vopn í óvinum femínista (sem yfirleitt eru jafn áttavilltir í gagnrýni sinni og femínistar eru í málstaðnum). Og það verður að einhverri dyggð að sýna samtöðu útávið. Og í viðleitni til þess að efla samstöðuna er hópeflið nauðsynlegt og mjög hjálplegt að beita örlitlum ýkjum við að demonísera óvin. Og persónugera óvin. Síðan verður til svona hefðbundið valda- og kerfisapparat utan um femínistana. Þeir fá styrki úr opinberum sjóðum og koma sér fyrir í kerfinu. Grasrótin er látin beina gagnrýni og óþoli inn á við og fólk raðar sér í nefndir og hópa. Yfir þessu vakir talskona eða stjórn sem stýrir því sem frá hópnum fer. Þess er síðan gætt að senda frá hópnum nokkurnveginn jafnmargar fréttatilkynningar sem hefjast á „harmar að...“ og „fagnar því...“

Hópkenndin verður notaleg og kósí og allt gengur vel svo lengi sem samstaðan er ekki rofin opinberlega.

Á meðan er fjöldinn allur af femínistum með vaxandi innanmein, ólgu þess sem getur ekki fyllilega sætt sig við hugsjónir sínar. Er ekki sammála þeim málflutningi sem trekk í trekk er opinberaður sem hin femíníska afstaða – en getur ekki fyllilega fengið útrás. Upplifir sig eins og meðlim kirkjudeildar sem er ekki sammála öldungunum um allt.

Amish fólk hefur Rumspringa og flestar grúppur hafa álíka öryggisventla til að varðveita sjálfar sig. Gagnrýnin er viðbúin og henni er hleypt skipulega út eins og gufu um stromp. Eflaust sitja femínistar löngum stundum á kaffihúsum eða í stofum og rökræða afstöðu til álitamála. Og eflaust er einhverskonar meirihlutavilji t.d. á bak við þá hugmynd íslenskra femínista að staðgöngumæðrun sé óleyfileg smættun.


En hvað mig varðar gerir þetta allt femínismann að mjög óaðlaðandi málstað til að styðja og nema af. Það, sem átti að vera ferskt og ný sýn, brjóta hlekki hefur einhvernveginn þróast út í samskonar fyrirbæri og alltaf hafa haldið aftur af fólki. Flókið hugmyndafræðilegt kerfi sem fullt er af óskiljanlegum hugmyndun, andstæðum pólum og mótsögnum. Hlekkirnir eru kannski prjónaðir en ekki úr stáli – en eru hlekkir engu að síður.

Úr verður kerfisbundinn strúktúr sem byrjar að soga til sín völd og fólk. Og svo beita menn ofureinfölduðum klisjum eins og að femínismi sé fyrir þá sem vilja gera eitthvað í því að það skorti á jafnrétti sem gateway drug. Fyrr en maður veit af er maður í ópíummóki og veit ekki hvað snýr upp og niður. Sá sem vildi jafna mun kynjanna er skyndilega og án þess að skilja alveg af hverju orðinn bullandi marxisti. Af því að marxismi sé góður fyrir konur. Og vissulega er þetta pottþétt. Marxísk barátta er sannarlega eitthvað. Og ef því vilt gera eitthvað fyrir konur þá viltu vera marxisti.





En þetta skaðar engan

Og þegar ég hef farið út í einhverjar djúpar pælingar eða umræður um þetta þá verður niðurstaðan yfirleitt sú að jafnvel yfirlýstir femínistar segja fljótt að femínisminn sé ekkert ákjósanlegur. Og að auðvitað eigi kyn ekki að skipta svona miklu máli. En femínismi sé nú samt gagnlegri en ekkert. Tertium non datur: það er enginn þriðji möguleiki. Það sé engin ástæða til að fetta fingur út í femínista sem slíka því þeir séu í besta falli gagnlegir en í versta falli meinlausir.

Svar mitt er mjög einfalt. Þeir lestir sem ég er að benda á í fari femínista eru sömu lestir og komu til leiðar hinu kúgandi samfélagi. Fólk er fyllt af skylduhugmyndum og dygðum sem það skilur ekki til fulls. Valdakerfi og strúktúrar eru búnir til, formlegir og óformlegir. Fólk er alið upp við gagnrýnislausa gagnrýni á hina. Ef fólk finnur sig ekki eru útbúnir öryggisventlar fyrir kerfið svo það nái að viðhalda sjálfu sér.

Þeir hnífar sem ég er að beita við að skera í femínismann eru ekki þannig að þeir vinni á því sem er fagurt og gott við femínismann. Allt sem er einhvers virði, er ígrundað og göfugt, lifir af „árásir“ eins og mína. Og það eina sem femínistar myndu sjálfir tapa við að beita sömu aðferðum væru skýjaborgir sem byggðar hafa verið og fylltar með nauðungarflutningum.

Sú aðferð að reyna að nema hið góða en rífa niður það sem orkar tvímælis myndi tortíma „feðraveldinu“ löngu áður en grunnatriði femínismans byrjuðu að skjálfa.

Samstaða fólks og áhrifamáttur til breytinga er ekki gott afl í sjálfu sér og hefur oftar en ekki verið lykillinn að skipulagðri kúgun og ofbeldi. Það er aðeins með því að setja ábyrgðina í hendur hverjum einasta einstaklingi sem við getum rofið þá eilífu hringrás voðaverka og ofbeldis sem virðist fylgja snúningi hjóls tímans.

Þegar fólk flýtur af stað með hugsjónum sem höfða til djúpstæðra tilfinninga en eru rofnar frá skynseminni þarf ekki nema eitt rotið epli til að fokka öllu upp. Það þarf að fá öllum eplunum í körfunni lyktarskyn og fætur, svo þau geti forðað sér og öðrum frá rotnun.

En aðalröksemd mín er að það sem er gott og fagurt við femínismann hefur ekkert með kyn að gera. Femínismi er aðeins hálft hikandi skref að þeirri augljósu og virðingarverðu hugsjón að hver manneskja eigi að fá að þrífast á eigin forsendum án þess að vera steypt í allrahanda mót frá frumbernsku og frameftir öllu. En með því að stara á kynfæri fólks og skoða samfélagið að mestu út frá menningarlegum mun kynjanna og skilgreina mun í aðra áttina sem „vald“ og reyna að jafna það út – held ég að femínisminn geri stórkostlega villu. Markmiðið á ekki að vera að steypa kynin með sömu mótunum. Markmiðið á að vera að skoða mótin betur, ígrunda þau og leyfa svo fólki að hoppa sjálfviljugt ofan í þau – eða sleppa því.

1 ummæli:

Kristinn sagði...

Sæll Ragnar

Þetta er skemmtilegur langhundur hjá þér.

Þú snertir á flestu sem ég hef sjálfur verið að upplifa eftir að ég fór að spá í femínisma, m.a. það að hafi maður eitthvað að segja sem ekki hentar femínistum þarf maður stöðugt að minna á að maður sé ekki á móti femínisma eða á móti jafnréttisbaráttunni.

Femínismi eins og allt annað á hefur kosti og galla og funkerar best í einhverju ákveðnu hlutfalli við aðra þætti.

Einn af ókostum femínismans er sá að feðraveldishugmyndafræðin og áherslan á að túlka strauma í samfélaginu sem valdatafl veldur slíkri rörsýni hjá sumum femínistum að augljósar ranghugmyndir verða að viðteknum sannleik meðal þeirra. Á ég þá við orðalag á borð við það að allar vændiskonur séu "þrælar" og fleira í þeim dúr. Sannleikurinn fær að fjúka fyrir reiðlegri tilfinningunni fyrir því að konur í allskyns stöðum séu viljalaus verkfæri karlaveldisins og öðruvísi eigi ekki að tala um þá hluti, annars sé verið að láta vilja karla ganga fyrir.

Það að leyfa sér að líta á gagnrýni karla sem karlrembu og kvenna sem meðvirkni er viðhorf sem verður að sjálfmagnandi ofsatrú sem í sumum tilfellum endar í linnulausu hatri á kynhlutverki karla (gender), án þess að karlar séu endilega hataðir.

Femínismi inniber þessar hugmyndir að einhverju marki og það er tómt bull að kalla óskilgreindan vilja til þess að kynin séu jöfn femínisma, því sú afstaða þarf alls ekki að felast í að hafna eðlismun kynjanna eða að þykja feðraveldið sérlega tæmandi kenning.

Eins og Eva Hauksdóttir bendir óbeint á í nýlegri færslu byggir mikið af heift femínista út í viðksipti með kynlíf á upplognum heimildum um hversu algengt mansal er fleira þess háttar sorglegt og ömurlegt. Á þeirri reiði byggist síðan gjarnan andúðin út i að efast sé um femínisma, því þá þykir þeim sem menn hafi ekki samúð með kynlífsþrælkun kvenna.

Hreyfingin er hinsvegar löngu búin að skjóta sig í fótinn með ofsafengnum vilja til að trúa öfgakenndustu og ruddalegustu mögulegu hlutum upp á feðraveldið og hefur ótaloft gerst sek um að keyra á fölskum áróðri til að afla sér fylgis og meðbyrs - sjá ótal stofnanir myndaðar vegna ímyndaðs stigs af þrælkun á konum, þegar orðið þræll er auk þess orðið merkingarlaust þar sem það er jafnvel notað um allar konur í vændi.

Sjá t.d. Könskriget og grenarnar sem Eva bendir á í bloggfærslu sinni.

Femínismi er hinsvegar mjög áhugaverð greining á samfélaginu og mjög mikilvægur sem slíkur. Kynhlutverkin eru mjög merkileg og við þurfum einmitt að skilja þau til að fólki sé ekki sjaĺfkrafa hólfað niður í þau, heldur fá val um það.

Tilhneiging femínismans til að eiga í stríði veið almenna skynsemi þykir mér hinsvegar mjög varhuguaverð. Konur í vændi eru ekki allar þrælar, eiga ekki allar bágt og nauðganir eru misalvarlegar. Eðlismunur mótar tilveru okkar tölvuert og fleira í þeim dúr. Þegar fólk þarf á því að halda að neita svona augljosum staðhæfingum er etthvað að - og það getur varla verið gott.

mbk,