13. desember 2010

Þið sem samþykktuð Icesave á þingi...

Stjórnarliðar, sem samþykktu fyrir sitt leyti og þjóðarinnar, hinn voðalega Icesave-samning sem síðan var hafnað afsaka sig með því að þá hafi aðstæður verið aðrar. Ísland hafi verið einangrað og ekki átt annarra kosta völ.

Sorrí. Þessi afsökun er ekki gild. Og hún er ógild af tveim ástæðum.

Í fyrsta lagi var stöðumatið rangt og sérstaklega sá partur þess sem snéri að því hvernig mál myndu þróast félli samningurinn á þingi eða í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Um það þarf ekki að deila. Og fjölmargir (þar á meðal lúsin ég) bentu á að miklu líklegra væri að mál myndu þróast með þeim hætti sem þau síðan gerðu.

Þetta skrifaði ég t.d. þá:

þótt samningnum verði hafnað hafa samningsaðilarnir enga hagsmuni af því að berja á Íslandi. Þeirra hagur er að ná besta samningi sem þeir geta náð.


Mat á stöðunni var semsagt rangt.

Hin ástæða þess að afsökunin er ekki gild er hið hörmulega niðurbrot lýðræðisreglna sem varð í kjölfar og af völdum þessa ranga stöðumats. Örfáir menn í kringum Svavar og Steingrím þóttust hafa greint mál þannig að það væri mikilvægara að koma þessum tiltekna samningi gegnum þingið en að fylgja lýðræðislegum leikreglum. Fyrst átti enginn að fá að sjá samninginn, svo átti að veita aðgang að skjölum í leyniherbergi – og þegar allt kom til alls voru þingmenn neyddir til að samþykkja samninginn, þvert gegn eigin sannfæringu. Málinu var nauðgað í gegnum þingið á gamalgróinn íslenskan hátt.

Sem sagt, Steingrímur (sem ber ábyrgðina á málinu) mat málið rangt og líka þann hluta þess sem snéri að áframhaldandi atburðarás. Og í krafti þessa ranga mats braut hann gegn lýðræðinu. Þetta ranga mat var á engan hátt „rétt“ í ljósi aðstæðna.

Hinsvegar er nokkuð ljóst að samninganefndin kunni hvorki að semja né hafði bolmagn til að átta sig á því hvenær mótsemjandinn var að „blöffa“ og hvenær ekki. Það var skíthrædd samninganefnd sem hræddi Steingrím sem hræddi þingheim.

Það er kaldhæðnislegt að þessi sama ríkisstjórn ætlar með forræðishyggju sinni að banna fátækum Íslendingum að taka „smálán“, okurlán sem veitt eru örvæntingarfullu fólki til að bjarga sér út úr stundarvandræðum.

Engin ummæli: